149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög.

792. mál
[23:42]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér í dag hefur mikið verið rætt um skrif Stefáns Más Stefánssonar. Það snýr að þessum fyrirvara og hvað við þurfum að gera ef við tökum ákvörðun um að leggja sæstreng. Þá þurfum við að yfirfara ákveðin atriði. Það er ekki það sama. Það er ekki það sama og það sé einhver fyrirvari um hvort við þurfum að leggja sæstreng eða ekki. Við þurfum ekki undanþágur vegna skyldu okkar til að leggja sæstreng af því sú skylda liggur ekki fyrir og hún er ekki partur af þriðja orkupakkanum.

Þriðji orkupakkinn eða fyrsti eða annar eða fjórði eða hvað sem á eftir kann að koma snýr ekki að auðlindum okkar. Við ráðum því hvort og þá hvernig við nýtum okkar auðlindir. Þegar við höfum tekið ákvörðun um að nýta auðlindir með einhverjum hætti og úr verður til raforka, þá er það vara eins og hver önnur vara. Það er ekki partur af þessum þriðja orkupakka að gera okkur skylt að leggja sæstreng eða segja já ef einhver hefur áhuga á að leggja sæstreng.

Það hefur verið í umræðunni í 25 ár hvort við ættum að leggja sæstreng. Það eru örugglega einhverjir sem hafa áhuga á því að leggja hingað sæstreng, en það er á okkar forræði að gera það. Það er ekkert slíkt regluverk til um það af því að það hefur ekki verið á dagskrá. Menn verða að gera greinarmun á þessu. Auðlindir og nýting okkar á þeim er ekki partur af þessu. Það er ekki partur af orkumarkaðnum.

Orkumarkaðurinn snýr að því þegar við höfum tekið ákvörðun um að nýta auðlindir okkar og úr verður raforka. Þá er raforkan vara eins og hver önnur vara. Þá tekur ákveðið regluverk við. Auðlindir eru ekki partur af því regluverki. Menn verða einfaldlega að gera greinarmun þarna á og það er ekki málefnalegt að blanda þessu endalaust saman gegn betri vitund. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)