149. löggjafarþing — 91. fundur,  10. apr. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[00:16]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er einungis Landsvirkjun og Landsnet sem geta óskað eftir því að fara inn á þennan lista, hinn svokallaða PCI-lista. Það er í höndum okkar Íslendinga, í þessu tilviki þessarar stofnunar hér, Alþingis, að samþykkja að slíkt sé gert. Í gögnum þessa máls, í álitsgerðum sem hafa komið fram, t.d. Skúla Magnússonar, eru atriði á bls. 39 í niðurstöðukafla, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Vakin er athygli á því að umræddar gerðir þriðja orkupakkans, og heimildir 7., 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 713/2009, taka með engum hætti til ákvarðana um tengingu fyrir flutning raforku til annarra ríkja, svo sem með lagningu sæstrengs. Því síður taka heimildirnar til ákvarðana um eiginlega nýtingu auðlinda, t.d. virkjana. Það er því niðurstaða mín að umfjöllun um þessi efni, sem lúta að afstöðu almennra reglna EES-samningsins til auðlindastjórnar, falli utan þeirra álitamála sem mér hefur verið falið að fjalla um og hafi þar af leiðandi ekki þýðingu um stjórnskipulega heimild til innleiðingar gerða svonefnds þriðja orkupakka.“

Ég held að í umræðunni, sem er komin á þriðja sólarhringinn, í gær og fyrradag, hafi þetta ekki verið alveg nægilega skýrt, finnst mér, vegna þess að það er tiltölulega skýrt hvernig staðið er að þessum málum. En í umræðunni hefur svolítið verið hrært í pottunum. Það er tilfinning mín. En þetta er mjög skýrt og síðan með PCI-listann. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Það voru íslensk fyrirtæki; Landsnet og Landsvirkjun og stjórnvöld (Forseti hringir.) þess tíma — ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórn (Forseti hringir.) Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á sínum tíma (Forseti hringir.) hafi eitthvað haft með það að gera að hafa sótt um að fara inn á PCI-listann (Forseti hringir.) á þeim tíma.