149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Una Hildardóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á æskulýðslögum en þau hafa ekki verið endurskoðuð frá samþykkt þeirra árið 2007. Eins er Ísland eitt fárra ríkja sem hefur ekki sett sér stefnu í málefnum ungmenna, að undanskilinni stefnumótun Æskulýðsráðs frá árinu 2014 sem gilti til ársins 2018. Því er Ísland stefnulaust þegar kemur að málefnum ungmenna. Fyrsta markmiðið í stefnumótun Æskulýðsráðs í æskulýðsmálum er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Skipulag æskulýðsmála sé samræmt á landsvísu og stuðli þannig að samstarfi allra aðila sem koma að æskulýðsstarfi.“

Þar kemur einnig fram, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að umhverfi og skipulag æskulýðsstarfs sé í stöðugri þróun og taki mið af þörfum samtímans. Því þarf að gera breytingar á skipulagi æskulýðsmála.“

Þá var m.a. lagt til að endurskoða æskulýðslög en í raun kölluðu fagaðilar eftir endurbótum á lagaumhverfinu þegar stefnumótunarferlið hófst árið 2012.

Virðulegur forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur eflt ungmennastarf verulega á kjörtímabilinu, m.a. með auknum fjárstuðningi við frjáls félagasamtök sem starfa í þágu ungs fólks. Þó stendur félagsstarf ungmenna enn á óstöðugum grunni. Því er löngu tímabært að endurskoða lögin, einkum í ljósi þess að telja má að bæði málefni barna og ungs fólks liggi nú á milli tveggja ráðuneyta, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins. Í dag eða á morgun verður fyrirspurn minni til mennta- og menningarmálaráðherra, um hvort standi til að endurskoða lögin áður en ráðist verður í frekari stefnumótun, dreift. Ég bind vonir við að stefnan verði heildstæð, samræmd, mæti ólíkum þörfum barna og ungmenna og verði unnin með virkri þátttöku ungs fólks.