149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við séum alveg sammála um að vilja byggðum landsins sem best og hægt sé að búa á sem flestum stöðum áfram um ókomin ár vítt og breitt um landið. Ég er inni á því að auka þurfi fjölbreytni í þeim sjávarbyggðum, en ég held að við gerum það ekki á kostnað þess sem hefur verið að byggjast upp í strandveiðum. Það er eina leiðin til að komast inn í fiskveiðistjórnarkerfið án þess að eiga það mikla fjármuni í fjárfestingum til að kaupa aflaheimildir og dýra báta. Menn geta byrjað þarna smátt. Háskólinn á Akureyri gerði rannsókn á því. Í upphafi var mikil aukning, en frá 2009 hefur að meðaltali verið um 10–15% nýliðun í greininni, svo hún er til staðar.

En ég tel að uppboð, að fara út í það að bjóða upp, segjum þau 11.000 tonn sem eru til skiptanna, sé ekki til að styrkja sjávarbyggðir landsins, að menn fari að slást um það. Það getur komið mjög mismunandi niður ár hvert eftir byggðum.

Ég tel að markaðsleiðin gagnvart þeim minnstu sé ekki rétta leiðin til að jafna leikinn. Ég tel að strandveiðarnar borgi veiðigjöld alveg eins og allir aðrir. Strandveiðarnar hafa verið að skila mjög góðu hráefni. Þær hafa verið að dreifa afla tímabilið yfir sumarið þegar margir hverjir eru búnir að veiða, þessir stóru, sinn kvóta og leggja jafnvel bátum sínum og hafa miklar aflaheimildir. Við megum ekki gleyma því að aflaheimildir hafa verið að þjappast saman á örfáa síðustu árin.

Gefum þessu frelsi, eflum frekar strandveiðar. Ég myndi vilja sjá í framtíðinni að strandveiðar væru frjálsar krókaveiðar. (Forseti hringir.) En við erum í pólitískum veruleika (Forseti hringir.) og ég tel að við séum búin að ná góðri samstöðu um málið eins og það er.