149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

803. mál
[23:12]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þetta eru allt ágætishugleiðingar og ég er alveg sammála því að það getur vel verið að ástæða sé til að fara yfir það, en þeir sem undirbjuggu frumvarpið töldu sig taka þar saman þau atriði sem brýnast væri að taka á í lögum um ríkisendurskoðanda núna. Reyndar erum við með tiltölulega ný og að mínu mati góð lög frá 2016 um embættið. Valdheimildir þess eru sterkar, það hefur hlutverki að gegna, ríkisendurskoðandi hefur alveg skilgreindu hlutverki að gegna, líka hvað varðar lög um opinber fjármál. Nú koma tilvísanir inn í þau í stað þess að áður var vísað í eldri lög um fjárreiður ríkisins. Ég þykist líka muna rétt að ríkisendurskoðandi hefur skýru hlutverki að gegna hvað varðar eftirlit með stöðlunum og að þetta sé gert upp á réttan hátt. Þetta man ég af tveim ástæðum, vegna þess að þegar við vorum að undirbúa tillögu til Alþingis um kosningu á nýjum ríkisendurskoðanda var þetta eitt af því sem var undir í mati á hæfustu umsækjendunum, að ríkisendurskoðandi hefur þarna mikilvægu hlutverki að gegna. Í því felst að sjálfsögðu að færsla eignanna, verðmat þeirra, skuldir og hvernig þær eru meðhöndlaðar, skiptir máli.

Svo er þetta reyndar ástæða þess að ríkisreikningurinn var áritaður með fyrirvara eða ekki staðfestur með venjubundnum hætti að þessu sinni, af því að við erum í innleiðingunni á þessu og það mun sjálfsagt taka einhvern tíma að komast í gegnum það allt saman á endastöð. Þar skiptir embætti Ríkisendurskoðunar einmitt miklu máli, að hafa það öflugt á þessu sviði.

Varðandi aftur megintilgang frumvarpsins um tekjueftirlitið er ég mjög sammála þeirri áherslu að styrkja það hjá embættinu. Margt bendir til þess að það geti gefið vel af sér, t.d. það að hafa eftirlit með afskriftum skattkrafna þannig að aldrei sé gefið eitthvað eftir sem innheimtanlegt væri nema nauðsyn beri til.