149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

reglugerð um þátttöku Sjúkratrygginga vegna tannlækninga og tannréttinga.

[10:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt, sem kemur fram í máli hennar, að um síðustu áramót var gerð breyting á reglugerðinni. Í henni fólst að í greininni þar sem fjallað er um í hvaða tilfellum Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í kostnaði sjúkratryggða, vegna nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga, var sérstaklega tilgreint til hvers konar vandamála slík endurgreiðsla ætti að taka.

Svo virðist sem, af því að hv. þingmaður spyr hvort ekki hafi verið nægilega skýrt kveðið að orði í þessari reglugerð, ekki sé hafið yfir vafa að það hafi mögulega ekki verið nægilega skýrt. Það er hins vegar alveg ljóst, af samskiptum mínum við Sjúkratryggingar Íslands og þá sem þarna eru að glíma við kerfið, ef svo má að orði komast, að núverandi mat og ákvörðun um greiðsluþátttöku er ekki nægilega skýr ef marka má upplifun þeirra foreldra sem eru að segja frá, foreldra barna með skarð í góm eða vör, sem segja að ferlið sé ógagnsætt og geti jafnvel leitt til ósanngjarnar afgreiðslu umsókna.

Ég hef óskað eftir því að ráðuneytið, í samráði við Sjúkratryggingar Íslands, rýni þessa stöðu, bæði að því er varðar regluverkið og framkvæmdina, og þá kemur til álita að endurskoða fyrirkomulag matsferlisins með það að markmiði að veita þessum börnum betri þjónustu. Ég er mjög hugsi yfir því hvort það fyrirkomulag sem hefur verið við lýði, hvort sem því er beitt með réttmætum hætti eða ekki, sé besta fyrirkomulagið. Mér finnst að það ætti að koma til umfjöllunar, a.m.k. umhugsunar, hvort breiðara faglegt teymi ætti að taka til skoðunar tilvik af þessu tagi þannig að fleiri sjónarmið kæmu til skoðunar en nákvæmlega þau sem hér eru rædd.