149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.

[11:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem er afar mikilvæg því að þarna er um að ræða þjónustu sem er veitt um allt land og það eru gríðarlega margir aðilar sem standa að þessum samningi í þeim samningaviðræðum sem fara nú fram við Sjúkratryggingar Íslands. Ég átti fund með forstjóra Sjúkratrygginga í gær og samkvæmt mínum upplýsingum hafa samningafundir verið haldnir á allra síðustu vikum um þau mál sem þarna eru undir og hafa verið ákveðin álitamál þar uppi að því er varðar forsendur samninga. Kallað hefur verið eftir upplýsingum og mér er kunnugt um þau sjónarmið sem hv. þingmaður nefnir. Það er ósk samtakanna að fá jafnvel utanaðkomandi eða þriðja aðila að borðinu til að reyna að leiða þessi sjónarmið saman. Samkvæmt lögum fara Sjúkratryggingar Íslands með samningsumboð ríkisins við veitendur heilbrigðisþjónustu og þessarar þjónustu einnig. Þar með er það verkefni á borði Sjúkratrygginga Íslands. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að það er auðvitað tímabært að komast að niðurstöðu í þessum samningum.

Ég tek líka til þess, og ég hef raunar nefnt það bæði í þingsalnum og við hv. fjárlaganefnd, að það þarf að tryggja rekstrarfjármagn og rekstrarheimildir á árunum 2023 og 2024 í fjármálaáætlun þar sem við gerum í raun og veru enn þá ráð fyrir mikilli uppbyggingu, en rekstrarheimildir eru ekki tryggðar. Jafnframt þurfum við að tryggja að nægilegur sveigjanleiki sé í kerfinu, að við getum verið með bæði hjúkrunarrými og dagdvalarrými sem kallast á vegna þess að það verður sífellt meiri þörf fyrir sveigjanleika. Ég er upplýst frá degi til dags um stöðu þessara viðræðna, ég hef ekki verið fullvissuð um annað en að Sjúkratryggingar Íslands séu í þessum samningaviðræðum og er þeim fyllilega treyst af ráðherra málaflokksins til að halda því áfram.