149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.

[11:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Svarið er: Nei, þetta er ekki partur af einhverju heildarendurskoðunarplani nema að því leytinu til, eins og hv. þingmaður þekkir, að við erum að leggja línur til framtíðar varðandi kaup á heilbrigðisþjónustu í nýrri heilbrigðisstefnu. Þá gerum við ráð fyrir því að ríkið sé upplýstara um það og það sé skýrari vilji í samningunum nákvæmlega hvers konar þjónusta það er sem ríkið er að kaupa, hvað hún kostar og síðan hvernig árangurinn er metinn í samræmi við mat á árangri, öryggi og gæðum. Það er nokkuð sem verður að gera.

Af því að hv. þingmaður segir að allnokkrir samningar séu í uppnámi, eins og hún orðar það, þ.e. sem eru lausir og verið er að vinna að og það séu mikil verkefni fram undan, er það svo að í gildi eru yfir 200 samningar um kaup á heilbrigðisþjónustu þannig að það má ætla að á öllum tímapunktum, eiginlega sama á hvaða tímapunkti það er, séu samningaviðræður í gangi við einhvern veitanda heilbrigðisþjónustu.

Hv. þingmaður spurði um ýmislegt annað en nú er tíminn búinn, virðulegur forseti.