149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[17:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er afar ánægjulegt að heyra hversu jákvæðir þingmenn eru gagnvart þessu frumvarpi þar sem við búum til lagalegan ramma í kringum lýðskóla. Það er nú svo, eins og kom fram í máli nokkurra þingmanna, að þessir skólar hafa verið til og starfað býsna lengi. Auðvitað er rétt sem hér hefur komið fram að fyrrverandi menntamálaráðherra, Jónas Jónsson, var mikill áhugamaður um lýðskóla. Sjálfur var hann í lýðskóla í Danmörku frá 1906 til 1907 og hafði mikinn hug á því að efla allt sem tengdist lýðskólum á Íslandi.

Með leyfi forseta langar mig aðeins að vitna í Jónas, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins. Hann segir á einum stað að honum hafi „blöskrað andleysið í hefðbundnum skólum og innihaldsleysi þeirra og að þeir væru of mikið sniðnir að fyrirmynd embættismannaskólanna“.

Eitt af því sem við höfum verið að ræða svolítið í dag er mikið brotthvarf á framhaldsskólastiginu á Íslandi. Það hefur komið fram í þessari umræðu að þeir sem ekki finna sig í skólakerfinu geta lent í miklum erfiðleikum seinna meir. Þess vegna er mjög brýnt að við nálgumst menntamálin út frá því að allir geti lært og að allir skipti máli. Ég mun leggja áherslu á það að þegar við mótum menntastefnuna sem við erum búin að vera að gera — við höfum haldið yfir 50 fundi um allt land — að þetta hugarfar, þessi nálgun, sé ein af lykilstoðunum.

Þess vegna fannst mér mjög brýnt að koma fram með þetta frumvarp. Ég vil þakka þingmönnum, til að mynda fyrrverandi þingmanni Brynhildi Pétursdóttur sem lagði fram þingsályktunartillöguna á sínum tíma. Það er mikilvægt að koma með frumvarpið núna til að ná utan um þessa miklu þróun sem við sjáum á Seyðisfirði og á Flateyri.

Ég er sammála því sem hefur komið hér fram: Auðvitað er þetta byggðamál. Þetta er til að efla byggð þar sem þessir skólar eru og ávinningurinn er að efla einstaklinginn, efla lykilhæfni, lýðræðishugsun. Við erum auðvitað að auka fjölbreytileika er varðar námsval.

Ég vil líka nefna að það kom fram í máli hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar að eitt af því sem hann hefði séð einna mest eftir væri að hafa stutt hina svokölluðu 25 ára reglu. Það hefur kannski farið fram hjá hv. þingmanni að eitt af mínum fyrstu verkum var að afnema 25 ára regluna.

Alltaf þegar við nálgumst svona stóran málaflokk eins og menntamálin eru þurfum við að gera það á heildstæðan hátt. Kennarafrumvarpið sem ég mælti fyrir í gær er einmitt af þeim toga, þ.e. að við verðum með eitt leyfisbréf sem nær yfir leik-, grunn- og framhaldsskólastigið. Eitt af því sem við sjáum er að þegar nemendur hverfa frá námi hefst sú þróun ekki á framhaldsskólastiginu. Við sjáum vísbendingar miklu fyrr. Þess vegna er mjög mikilvægt að við séum með kennara sem þekkja til allra þessara skólastiga. Að mínu mati er mikilvægt að samhliða sérhæfingu höfum við líka þessa heildarhugsun og heildarnálgun í menntamálum.

Eitt af því sem fram hefur komið hér í máli þingmanna er fjármögnun. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur komið á fjármögnun á lýðskólunum á Flateyri og Seyðisfirði. Við munum sjá hvernig þessir skólar þróast. Nú er komið frumvarp sem styður enn frekar við þá og það er aðdáunarvert að fylgjast með þróun lýðskóla í Danmörku. Í fyrradag funduðu allir norrænu menntamálaráðherrarnir. Þá kom fram í máli Riisager, sem er danski menntamálaráðherrann, að um 50% allra nema í Danmörku fara í lýðskóla, jafnvel eftir að þeir ljúka námi á framhaldsskólastiginu. Þetta er gríðarlega vinsælt og aðstoðar marga við að finna þá leið sem þeir vilja fara í lífinu. Þar er — svona eins og ég skil þetta — blönduð fjármögnun.

Einnig hefur verið nefnt mikilvægi vestnorræns samstarfs. Ég vil taka undir það. Ég tel að skiptinám, hvort sem erlendir nemar koma hingað eða við sækjum nám til útlanda, sé ein besta leiðin til að auka víðsýni og skilning á ólíkum menningarheimum. Þetta er oft mjög meðvituð aðferðafræði við að auka menningarskilning. Oft er líka sagt að skiptinemar séu bestu sendiherrar viðkomandi ríkja þegar fram líða stundir. Þetta er oft mjög jákvæð upplifun og til þess fallin að efla einstaklinga.

Ég held að núna þegar málið fer í allsherjar- og menntamálanefnd verði mjög fróðlegt að sjá þær athugasemdir sem munu berast. En ég fagna því verulega hversu góðar umræðurnar hafa verið á þingi og hve þingmenn eru jákvæðir gagnvart frumvarpinu.

Mig langar að nefna að þingmenn hafa verið að spyrja út í Laugarvatn og stofnun lýðskóla þar. Það er allt í skoðun í ráðuneytinu og við erum að vega og meta kosti og galla þess. Við höfum séð mikinn kraft og dugnað í þeim lýðskólum sem eru starfræktir á Íslandi. Þetta frumvarp er liður í því að styðja enn frekar við starf þessara skóla.

Mig langar að nefna hér að lokum að þegar við mótum menntastefnu til framtíðar, til ársins 2030, þurfum við að nálgast hana þannig að við setjum menntamálin alltaf á dagskrá, einnig er varðar samfélagslega umræðu. Mig langar að fagna sérstaklega forsíðu Fréttablaðsins í dag þar sem er fjallað um störf kennara og þeir nefndir „draumasmiðir framtíðarinnar“. Það finnst mér mjög falleg fyrirsögn og mjög góð umræða um menntamál.

Við höfum líka séð mikla umfjöllun um menntamál í Morgunblaðinu. Ég verð að segja að mér finnst þessi samfélagslega umræða um menntamál svo góður vitnisburður um hvert við ætlum okkur sem þjóð, að við stefnum að því að hér verði framúrskarandi menntakerfi. Við vinnum auðvitað að því alla daga.

Það er þrennt sem má taka saman sem einkennir framúrskarandi menntakerfi. Þetta hef ég af lestri samanburðarrannsókna hjá OECD. Það er í fyrsta lagi að menntamálin séu sett á dagskrá í þjóðmálaumræðunni og líka að fjármunum sé forgangsraðað á öllum skólastigum og að þetta sé mikið til umræðu, bæði jákvæð þróun í menntakerfinu og líka það sem má betur fara.

Í öðru lagi er kennarinn og mikilvægi hans mjög áberandi í allri mótun menntastefnu. Það kemur líka fram í könnuninni TALIS að menntakerfin þar sem kennarinn svarar því til sem svo að starf hans njóti mikillar viðurkenningar í samfélaginu eru þau menntakerfi sem koma mjög vel út í alþjóðlegum samanburði. Þetta fer saman. Og við verðum að hafa hugfast við næstu skref sem við tökum við mótun menntastefnu að kennarinn sé lykilaðili.

Svo í þriðja lagi — og það tengist líka umræðu um lýðskóla — er það hugarfar að allir geti lært og allir skipti máli. Þess vegna er svo mikilvægt að við tökum mjög alvarlega það brotthvarf sem við sjáum á framhaldsskólastiginu. Við erum að vinna að því og að skoða hvers vegna það er að gerast, á hvaða stigi skólagöngunnar og hvernig við getum minnkað brotthvarf verulega. Við skerum okkur svo sannarlega úr hvað þetta varðar í samanburði við hin Norðurlöndin.

Í máli hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar vék hann að alvarlegum afleiðingum þess þegar unga fólkið okkar finnur sig ekki í skólakerfinu. Við höfum líka verið að rannsaka það. Þetta unga fólk er í margfalt meiri hættu er varðar í vímuefnanotkun og annað slíkt. Besta forvörnin er að unga fólkið okkar klári framhaldsskólastigið, sé í skóla. Þarna getum við klárlega fjárfest til framtíðar. Ég tel að skilningurinn sé að aukast verulega í samfélaginu um mikilvægi þessa.

Virðulegi forseti. Ég er mjög stolt af þessu frumvarpi og þakka þeim þingmönnum sem hafa komið inn í þessa umræðu. Hér er um framfaramál að ræða, löngu tímabært. Það er gaman frá því að segja að þegar við vorum að vinna að gerð þessa frumvarps var ég að labba inn í ráðuneytið og ég sé konu taka mynd styttunni af Jónasi frá Hriflu. Ég hugsaði: Ja, hérna, þarna er nú einhver með viti, að taka mynd af styttunni hans Jónasar. Þá vildi svo til að þarna voru á ferð, einmitt þegar við vorum að vinna þetta frumvarp, barnabörn Jónasar. Þau höfðu ekki komið inn í mennta- og menningarmálaráðuneytið en eins og margir vita var hann auðvitað skólastjóri og hafði aðsetur í þessu húsi. Mér fannst það mjög skemmtileg tilviljun að barnabörn Jónasar væru einmitt á för þarna í kringum mennta- og menningarmálaráðuneytið þegar var verið að vinna frumvarp til laga um lýðskóla.