149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

Þjóðgarðastofnun og þjóðgarðar.

778. mál
[18:22]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Því er til að svara varðandi stjórnir og umdæmisráð að hugsunin með því að hafa umdæmisráð er sérstaklega til þess að gefa heimafólki og samtökum hinna ýmsu hagsmunaaðila tækifæri til þess að koma meira að stjórnun allra náttúruverndarsvæða. Hér er spurt hvort það gæti orðið til einföldunar að stjórnir þjóðgarða, sem vissulega væru í umdæmum, gætu orðið þær sömu og stjórnir umdæmisráða. Ég tel alveg koma til greina að skoða slíkar einfaldanir og finnst skynsamlegt að kanna hvort það gæti verið til bóta.

Ástæðan fyrir því að þetta var sett fram með þessum hætti, svo að ég skýri það, var til að lyfta þjóðgörðunum, ef svo má að orði komast, aðeins meira upp og gefa þeim meira vægi þar sem þeir njóta ákveðinnar sérstöðu. Ég tek undir að það má skoða það.

Varðandi samspil við náttúruverndarlögin var það mat ráðuneytisins að gera þyrfti þetta með þessum hætti út frá lagatæknilegum ástæðum. Ef nefndin sér færi á því að gera einfaldanir þarna skoðum við það að sjálfsögðu með ykkur í ráðuneytinu.

Varðandi menningarminjarnar er getið um það í 25. gr. frumvarpsins að um menningarminjar fari samkvæmt ákvæðum laga um menningarminjar, nr. 80/2012, það er tekið sérstaklega fram.