149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

meðferð einkamála o.fl.

783. mál
[19:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Þá eru jafnframt lagðar til breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, barnaverndarlögum, lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili og lögum um dómstóla.

Frumvarpið er samið í dómsmálaráðuneytinu að höfðu samráði við réttarfarsnefnd. Bæði dómsmálaráðuneytinu og réttarfarsnefnd hafa borist ábendingar, m.a. frá Landsrétti, Hæstarétti og ríkissaksóknara, um ýmis atriði sem reynslan hefur leitt í ljós að betur megi fara í hinu nýja regluverki um málsmeðferð fyrir þessum dómstólum, auk annarra atriða sem ekki tengjast nýlegum breytingum á dómstólum og réttarfari. Ekki er um að ræða atriði sem hafa hamlað málsmeðferð fyrir þessum dómstólum heldur frekar þætti í málsmeðferðinni sem þarfnast frekari útfærslu eða samræmingar milli dómstiga og milli einkamálaréttarfars og sakamálaréttarfars.

Markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til með þessu frumvarpi er því fyrst og fremst að skýra, samræma og einfalda lagaákvæði sem fjalla um málsmeðferð fyrir dómstólum.

Frumvarpið felur jöfnum höndum í sér breytingar á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála og í nokkrum tilvikum er um að ræða samsvarandi breytingar á báðum lagabálkum þannig að í raun er um að ræða færri efnisbreytingar en fjöldi greina í frumvarpinu bendir til. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um dómstóla og öðrum lögum sem fyrr segir.

Veigamestu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum um upptökur og miðlun upplýsinga úr þinghaldi en samkvæmt gildandi lögum er óheimilt að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi án þess að dómari veiti til þess undanþágu. Breytingin felst í því að óheimilt verði að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða senda þaðan samtímaendursögn af skýrslutökum en dómari geti þó veitt undanþágu frá þessu. Þá verði óheimilt að birta slíkar upptökur sem gerðar hafa verið án leyfis dómara og að viðlögðum sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum. Sama gildi um hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði sem dómstóll annast.

Þessari breytingu er fyrst og fremst ætlað að treysta réttaröryggi en í réttarfarslöggjöf er kveðið á um þá mikilvægu reglu að hvert vitni skuli að jafnaði prófa sér án þess að önnur vitni hlýði á. Þessari reglu er ætlað að tryggja að framburður vitnis í dómsmáli mengist ekki af framburði annarra vitna sem þegar hafa gefið skýrslu þannig að áhrif geti haft á niðurstöðu dómsmáls. Þessi varúðarregla hefur augljóslega engin áhrif ef vitni geta fylgst með skýrslugjöf annarra vitna í beinni útsendingu utan dómsals. Ástæða þess að nauðsynlegt þykir að víkka gildissvið gildandi banns er jafnframt tilkoma ýmiss konar nýrrar fjarskiptatækni sem gerir þeim sem viðstaddir eru þinghöld mögulegt að senda út til smærri eða stærri hóps manna það sem fram fer í dómsal.

Í öðru lagi er lögð til sú breyting að málsaðilar fái einungis afhent afrit af hljóðupptökum af munnlegum framburði en ekki afrit af bæði hljóð- og myndupptökum. Aftur á móti verði málsaðilum leyfilegt að horfa á myndupptökur í húsakynnum dómstóls. Gerður er greinarmunur á hljóð- og myndupptökum að þessu leyti vegna hættu á því að myndupptökum af skýrslutökum fyrir dómi verði komið á netið. Myndskeið af munnlegum framburði er að öllu jöfnu mun áhrifameiri en hljóðupptaka eða endurrit af framburði og almennt þungbærara fyrir þann sem framburðinn gaf ef myndupptaka af framburðinum kemur fyrir sjónir almennings á netinu. Hætta á að slík myndskeið rati á netið getur orðið til þess að hafa áhrif á framburð vitna og ógnað þar með réttaröryggi. Ráðgert er í frumvarpinu að dómstólasýslan setji nánari reglur um afhendingu afrita af hljóðupptökum og aðgang að myndupptökum.

Þessi breyting felur ekki í sér takmörkun á meginreglunni um opinbera málsmeðferð þar sem hún felur ekki í sér neina hindrun á aðgengi almennings að þinghöldum eða endurriti af framburði fyrir héraðsdómi. Breytingunni er fyrst og fremst ætlað að vernda hagsmuni þeirra sem gefa munnlega skýrslu og tryggja réttaröryggi málsaðila.

Í þriðja lagi er lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögum að úrskurðir Landsréttar um að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um frávísun séu ekki kæranlegir til Hæstaréttar. Þessi breytingartillaga er í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar en rétt þykir að kveða skýrt á um þetta atriði í lögum.

Í fjórða lagi er lagt til að Landsréttur og Hæstiréttur geti kveðið upp dóma eða úrskurði í kærumálum, hvort heldur er í einkamáli eða sakamáli, þegar greinargerð varnaraðila hefur borist, jafnvel þótt hann hafi ekki nýtt til þess allan lögbundinn frest. Breytingin er til þess fallin að stytta málsmeðferðartíma í kærumálum þegar varnaraðili nýtir ekki frest sinn að fullu.

Í fimmta lagi er lagt til að í stað þess að fastsetja með lögum að héraðsdómur afhendi Landsrétti gögn kærumála í sakamálum í fjórriti afhendi héraðsdómur gögnin á því formi eða í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður. Með þessu er lögð til einföld breyting á meðferð kærumála í sakamálum fyrir Landsrétti sem felur í sér skref í átt að rafrænni málsmeðferð. Með því að gera ákvæðið hlutlaust gagnvart sendingarmáta á þennan hátt getur Landsréttur ákveðið að héraðsdómur sendi gögn kærumáls rafrænt að því gefnu að öryggi gagnasendinganna sé tryggt að mati réttarins.

Í sjötta lagi er lagt til að kæra til Hæstaréttar og ósk um kæruleyfi í einkamálum verði eftirleiðis sett fram í einu og sama skjalinu þar sem það á við. Er þessu ætlað að einfalda málsmeðferð í kærumálum fyrir Hæstarétti.

Í sjöunda lagi er lagt til að við áfrýjun til Landsréttar þurfi ekki lengur að greina frá því í áfrýjunarstefnu hverja áfrýjandi hyggst leiða fyrir dóm til skýrslugjafar um atvik máls og í hvaða skyni það skuli gert. Áfrýjunarfrestur er nú fjórar vikur. Reynslan hefur sýnt að við útgáfa áfrýjunarstefnu hefur lögmaður áfrýjanda tæpast haft nægilegt ráðrúm til að leggja grunn að málatilbúnaði sínum hvað varðar endurskoðun á sönnun. Þar sem gert er ráð fyrir að greinargerð áfrýjanda sé lögð fram við þingfestingu og frestur stefndu til að skila greinargerð byrjar þá fyrst að líða er þessi breyting ekki til þess fallin að valda stefnda óhagræði við varnir fyrir Landsrétti. Hagkvæmt virðist því að fella brott lagaáskilnað um að upplýsingar um þá sem áfrýjandi vill að komi fyrir dóm komi fram í áfrýjunarstefnu.

Í áttunda lagi er lagt til að skýrt verði tekið fram í lögum að Hæstarétti sé heimilt að takmarka áfrýjunarleyfi, hvort heldur er í einkamáli eða sakamáli, við tiltekin atriði máls. Þessi breyting er í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar en rétt er að taka af allan vafa um þetta atriði í lögum.

Í níunda lagi eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi gæsluvarðhalds þannig að ef ákærði situr í gæsluvarðhaldi þegar héraðsdómur eða dómur Landsréttar um óskilorðsbundna fangelsisrefsingu er kveðinn upp og gæsluvarðhaldinu hefur verið markaður tími fram yfir dómsuppsögudag ljúki því ekki sjálfkrafa við dómsuppsöguna nema dómfelldi lýsi því yfir að hann uni dómi. Standi svo á að ákærði er dæmdur til óskilorðsbundinnar fangelsisvistar og hann unir ekki dómi verður ekki þörf á að færa hann þegar í stað fyrir héraðsdómara og krefjast áframhaldandi gæsluvarðhalds heldur varir það áfram þar til upphaflegum tímafresti náð. Eftir sem áður verður ákvörðun um framlengingu gæsluvarðhalds meðan á áfrýjunarfresti eða meðferð máls fyrir æðri dómi stendur einungis tekin af dómara. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir að sú staða skapist eftir uppkvaðningu fangelsisdóma vegna alvarlegra brota sem geta sætt áfrýjun að óvissa verði um heimild fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi dómfellda að þeim tíma sem það var upphaflega markað fyrir dómi.

Í tíunda lagi er lagt til að vitnum í sakamálum verði einungis gert að greina frá nafni sínu og kennitölu en ekki heimili líkt og nú gildir. Þá er lagt til að lögreglumönnum verði einungis skylt að greina frá lögreglunúmeri sínu. Sú breyting miðar að því að vernda lögreglumenn sem oft þurfa að koma fyrir dóm starfa sinna vegna fyrir mögulegu ónæði og jafnvel ógn við öryggi þeirra og fjölskyldna þeirra.

Í ellefta lagi er lagt til að gjald verði tekið fyrir kæru til Hæstaréttar þegar um beina kæruheimild til Hæstaréttar er að ræða. Í þeim tilvikum sem lög mæla fyrir um að óska þurfi eftir leyfi Hæstaréttar til kæru verði greitt fyrir beiðni um kæruleyfi, hvort sem kæruleyfi er veitt eður ei. Ekki þurfi aftur á móti að greiða viðbótargjald fyrir kæru verði leyfið veitt. Þá er jafnframt lagt til að tekið verði gjald fyrir að leggja fram beiðni um leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar einkamáls, hvort sem slíkt leyfi verður veitt eður ei. Sé beiðni um áfrýjunarleyfi samþykkt verður á hinn bóginn að greiða viðbótargjald fyrir útgáfu áfrýjunarstefnu.

Loks í tólfta lagi er lagt til að skylt verði að kveðja til meðdómsmann eða meðdómsmenn í málum sem rekin eru samkvæmt 54. gr. barnaverndarlaga. Um fjölda þeirra og kvaðningu fari aftur á móti eftir almennum reglum um meðferð einkamála.

Þá er í þrettánda lagi lagt til að dómstólasýslunni verði falið að setja samræmdar reglur um birtingu dóma og úrskurða allra dómstiganna þriggja. Samkvæmt gildandi lögum ná reglur dómstólasýslunnar einungis til birtingar héraðsdóma en um birtingu dómsúrlausna Landsréttar og Hæstaréttar fer eftir ákvörðun þessara dómstóla að höfðu samráði við dómstólasýsluna. Áréttað er að í þessu felast engar frekari efnislegar breytingar á gildandi reglum laga um dómstóla um birtingu eða birtingarhátt dóma, svo sem um hvaða dómar og úrskurðir skuli birtir, nafnleynd aðila o.s.frv.

Þá hefur frumvarpið að geyma nokkrar smærri lagfæringar á orðalagi einstakra ákvæða og tilvísunum milli lagaákvæða sem þó þykja nauðsynlegar til að tryggja nægilega skýrleika ákvæðanna en ekki nauðsynlegt að rekja þær hér frekar.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.