149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

skráning einstaklinga.

772. mál
[16:44]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég virði það alveg við hv. þingmann að rifja það upp að lögin eru orðin jafngömul ráðherranum og margt hefur breyst síðan, ekki síst ráðherrann, frá því að hann var sjö daga gamall.

Varðandi fyrirspurnina er það auðvitað þannig að í 6. gr. er verið að opna á að ráðherra geti með reglugerð skráð aðrar upplýsingar — og svo eru þarna þó nokkrar nefndar. Það má velta því fyrir sér, alveg eins og hv. þingmaður nefnir, hvort 15. töluliðurinn um skráningu trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga eigi að vera þarna.

Við sjáum einfaldlega fyrst og fremst ekki allt fyrir sem mögulega er, að mati nútímans á hverjum tíma, nauðsynlegt að skrá — til þess m.a. að halda utan um hagsýslugerðir og upplýsingar og tölfræði og slíkt sem við höfum kallað eftir. Þess vegna er þessi heimild höfð inni. Sem dæmi má nefna að þarna er fjallað um t.d. að skrá staðsetningu hjónavígslu, það er eitt af dæmum ákvæðisins. Hún er ekki skráð í dag en hins vegar eru upplýsingar um stað hjónavígslu í svokölluðum könnunarvottorðum sem Hagstofan nýtir sér til hagsýslugerðar.

Varðandi trúfélögin er það auðvitað líka það fyrirkomulag að við greiðum ákveðna fjármuni til trúfélaga í dag. Til þess að geta gert það með sómasamlegum hætti hefur þessi leið verið notuð. Ég tel ekki að það sé verið að fara einhverja fjallabaksleið að því heldur vil ég kannski miklu fremur segja að þó að við séum með heildarendurskoðun á þessu væri það alveg sjálfstæð ákvörðun að fara í breytingar á þessari gjaldheimtu.