149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

skráning einstaklinga.

772. mál
[16:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er rétt hjá hv. þingmanni að enn er ekki búið að fjármagna endanlegar breytingar fyrir nýtt þjóðskrárkerfi. Ég held að það séu alla vega tvö önnur mál fyrir þinginu í dag, verða a.m.k. þrjú eða fjögur, sem byggja á því að við getum tekið upp nýtt þjóðskrárkerfi. Við höfum því miður ekki fundið þess stað enn í fjármálaáætlun að ljúka við þetta verkefni. Það er uppfærð kostnaðaráætlun sem birtist í greinargerð með þessu frumvarpi sem við teljum að þurfi.

Ef ég man rétt var líka talað um ákveðna fjármuni í öðrum þeim frumvörpum sem byggja á því að nýtt þjóðskrárkerfi sé orðið að veruleika. Ég held því að við þurfum nokkrir ráðherrar og nokkur ráðuneyti að leggjast á eitt við að ljúka þeirri fullfjármögnun, vegna þess að það er svo margt sem stendur því fyrir dyrum að þetta geti orðið að veruleika. Eins og ég nefndi í framsögu geta nokkur þeirra ákvæða sem við samþykktum í fyrra í lögum um lögheimili og aðsetur ekki komið til framkvæmda fyrr en nýtt þjóðskrárkerfi er orðið að veruleika. Ég treysti á stuðning þingsins til þess þegar þar að kemur.