149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Íslendingar vilja líta á landið sitt sem táknmynd hreinnar orku. Hér sé í lagi að stunda mengandi stóriðjurekstur því að orkan sem knýi hann sé svo hrein, þ.e. vatnsorka sem við höfum talið okkur trú um að sé alveg hrein, hafi engin áhrif á umhverfið, og jarðhiti sem við höfum talið okkur trú um að sé endurnýjanleg orka og í samanburði við olíuvinnslu og kolagröft er hún það svo sem. Ekki er þó allt sem sýnist í þeim efnum.

Álverin notast við kolefnisrafskaut til þess að bræða álið og við það losnar gríðarlegt magn koltvísýrings. Það skýtur jafnvel enn meira skökku við að kísilmálmverksmiðjur notast við kol til að framleiða kísilmálm. Með öðrum orðum flytja þessi fyrirtæki inn kol til Íslands til að standa í sinni stóriðju. Seint er hægt að tala um slíkt sem endurnýjanlega orku.

Markaðurinn fyrir losunarheimildir er samevrópskur og þarf hvert og eitt fyrirtæki að kaupa slíkar losunarheimildir. Það blasir við á komandi árum að verðið fyrir slíkar heimildir mun hækka. Er kísilverið á Bakka í stakk búið til að skipta út kolum fyrir ómengaða orku? Ef ekki, getur það staðið undir hækkandi verði á losunarheimildum? Og geti það ekki gert það, mun íslenska ríkið þá hlaupa undir bagga? Það yrði saga til næsta bæjar ef stjórnvöld í landinu, sem er táknmynd hreinnar orku, hjálpuðu fyrirtæki að brenna kol við iðju sína. Kolefnishlutlaust, já mikil ósköp, vitaskuld, nema hvað, en þá a.m.k. kolalaust.