149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að nota þann tíma sem ég þarf, hvort sem það verða tvær mínútur eða minna, til að ræða stöðuna á samgöngum til Vestmannaeyja, enn og aftur. Ég ætla að ræða stöðuna í Landeyjahöfn þar sem illa gengur að dýpka svo að Herjólfur komist þar inn og siglir Herjólfur enn þá í Þorlákshöfn þótt komið sé fram undir lok apríl.

Á sínum tíma var samið við aðila um dýpkun hafnarinnar sem fyrirsjáanlegt var og bæjarstjórn Vestmannaeyja varaði sérstaklega við að þetta fyrirtæki sem samið var við hafði ekki tækjabúnað eða getu til að sinna dýpkuninni. Það hefur komið á daginn og við höfum fylgst síðustu daga og vikur með tilraunum útboðshafa við að dýpka höfnina, sem hefur ekki gengið vel. Þeir þurfa svo marga daga til að fjarlæga sandinn sem þarna er fyrir að yfirleitt er komið svo slæmt veður að þeir ná ekki að klára það fyrir næstu lægð. Það fyrirtæki sem áður var með dýpkunina hafði miklu betri tækjabúnað og munar þrisvar sinnum á afkastagetunni, þannig að nú þurfa að Vestmannaeyingar bíða eitthvað fram á vorið og jafnvel fram á sumarið eftir að þessum útboðsaðila takist að opna höfnina.

Ég á enn nokkrar sekúndur eftir þannig að ég ætla að nefna fleira. Það er líka óboðlegt, herra forseti, að á vef Vegagerðarinnar skuli ekki vera hægt að sjá hvort skipið sigli dagsdaglega í Þorlákshöfn eða Landeyjahöfn. Þeir sem eru að fara til Vestmannaeyja geta ekki séð það á vef Vegagerðarinnar. Þeir geta séð þar hvort fjallvegir og alls kyns vegir um allt land eru opnir eða lokaðir en það er ekki hægt að sjá hvort viðkomandi eigi að keyra til Þorlákshafnar eða Landeyjahafnar ef hann ætlar til Vestmannaeyja. Það er ekki hægt að sjá á vefnum. Hann þarf að hringja, hann þarf að afla sér upplýsinga eftir öðrum leiðum. Þetta er óboðlegt og þarf að laga. (Forseti hringir.) Það er tími til kominn að laga höfnina og gera úttekt á því hvað þarf til að þessi höfn geti verið opin.