149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[14:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt hjá hv. þingmanni að í minni tíð hefur tveimur sendiráðum verið lokað, annars vegar tvíhliða sendiráðinu í Vín og hins vegar í Mósambík. Þau voru náttúrlega bæði þess eðlis. Eins og með Vín þá var enginn sendiherra Austurríkis hér. Við erum hins vegar ekki að slaka neitt á varðandi ÖSE. Við sinnum því enn þá og gerum það frá Vín en ég taldi enga ástæðu til að vera með tvíhliða sendiráð í Austurríki og ákvað þess vegna að við myndum nýta þá fjármuni annars staðar. Þetta er alltaf spurning um þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum. Það er ekkert sem bendir til þess í þeirri áætlun sem liggur fyrir að við höfum rými til þess að opna fleiri sendiráð.

Það sem ég hef lagt áherslu á er að við þurfum líka að nýta þau viðskiptatækifæri sem opnast með nýjum mörkuðum og sum viðskiptatækifæri eru nær okkur. Þess vegna fórum við í breytingar á Íslandsstofu, til að ýta undir samstarf við atvinnulífið, því að viðskiptaþjónusta utanríkisþjónustunnar og sendiráðin selja ekki nokkurn skapaðan hlut, atvinnulífið gerir það og því þurfa menn að vinna saman. Þau svæði sem menn hafa litið til, og þá ekki sem sendiráð heldur frekar viðskiptaþjónusta eða ræðismannaskrifstofur, sem hafa verið með sérstaka áherslu á viðskipti eru annars vegar á vesturströnd Bandaríkjanna.

Menn hafa líka verið að skoða stafræna sendiherra, svipað og þeir eru með í Danmörku og í Suðaustur-Asíu. Í Asíu erum við í Japan og Kína og síðan á Indlandi. Það er augljóst að vægi þessara ríkja muni aukast mjög mikið, sérstaklega Kína og Indlands. En það eru auðvitað mun fleiri markaðir en bara í þeim löndum. Það getur verið flókið og kannski ekki alltaf æskilegt að sinna erindum t.d. frá þeim löndum til nágrannaríkjanna af ástæðum sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) þekkir. Þannig að menn hafa litið til þessa. En það eru engir fjármunir til að fara í það, alla vega ekki á næstunni.