149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[14:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég taka skýrt fram að það vantar ekki metnað í íslenska utanríkisþjónustu. Ég held að við höfum alveg staðið undir þeim metnaði, eins og þessi skýrsla sýnir svo ekki verður um villst. Hins vegar verðum við alltaf að sníða okkur stakk eftir vexti. Þegar við sitjum hérna uppi með takmarkaða fjármuni snýst þetta um forgangsröðun, að nýta þá þannig að þeir gagnist hagsmunum Íslands sem allra best.

Varðandi loftslagsmálin erum við að taka gríðarlega mikið forystuhlutverk á mörgum sviðum núna, eins og ég nefndi í ræðu minni. Við erum með forystu í Norðurskautsráðinu, Norðurlandasamstarfinu. Við erum sömuleiðis í Norðurlandasamstarfinu og Eystrasaltsríkjunum, þ.e. NB8, og svo í kjördæmi Alþjóðabankans. Þar eru loftslagsmálin gegnumgangandi alls staðar.

Það að fara að taka stærri verkefni? Ef einhvern tíma skapast, svipað eins og í mannréttindaráðinu, þær aðstæður að það er ætlast til þess og við hvött til að taka yfir slík verkefni, auðvitað skoðum við það með opnum huga. (Forseti hringir.) En við þurfum auðvitað að sníða okkur stakk eftir vexti. Við erum með mjög stór verkefni sem er mjög mikilvægt að sinna. En þar verða loftslagsmálin (Forseti hringir.) svo sannarlega áberandi.