149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[15:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn á ný. Þá erum við bara sammála. Við erum sammála um að vera ósammála um það hvort gott sé að ganga í Evrópusambandið. Við erum líka sammála um að fjölþjóðleg samvinna er miklu meira en það eitt að vera í Evrópusambandinu.

Ég ætla ekki í svona stuttu andsvari að fara að deila neitt sérstaklega um það. Ég vildi hins vegar vekja athygli á nokkrum hlutum. Ef við tölum um framlög til þróunarmála þá er gott að taka það saman hver þróunin hefur verið í því. Mér er til efs, og það væri áhugavert ef hv. fjárlaganefnd myndi taka það saman, að nokkur einstakur útgjaldaliður hafi hækkað jafn mikið á undanförnum árum og framlög til þróunarmála. Við skulum aldrei gleyma því — við getum deilt um það hvernig við tökumst á við fjárlögin og annað slíkt — að það skiptir líka gríðarlega miklu máli hvernig við nýtum þessa fjármuni. Sem betur fer hafa úttektirnar sem gerðar hafa verið á framlagi okkar til þróunarmála, sem sagt verkefnunum, verið mjög jákvæðar og það er það sem skiptir máli. Við þekkjum það, eins og alls staðar annars staðar, að stundum setja menn fjármuni í hluti sem nýtast ekki vel. En við Íslendingar getum sagt, alla vega miðað við þær úttektir sem gerðar hafa verið af alþjóðlegum eftirlitsstofnunum, að við séum að gera vel fyrir þá fjármuni sem við leggjum upp með.

Hvað varðar vaxandi sóknarfæri í tengslum við Brexit þá hef ég margoft bent á hið augljósa, og ekki bara ég heldur bæði formaður og varaformaður Viðreisnar, að það eru sóknarfæri þegar kemur að sjávarútvegi, að aðgangi sjávarútvegsins inn í Bretland. Það skapar líka sóknarfæri ef Bretar fara þá leið, sem er stefna núverandi stjórnvalda, að leggja áherslu á fríverslun í heiminum. Það má nefnilega gagnrýna Evrópusambandið fyrir að hafa ekki nýtt sér stærð sína og stöðu til að ýta undir fríverslun í heiminum eins og það hefði getað gert, svo að eitthvað sé nefnt. Það var líka ánægjulegt að sjá að hingað kom hæstv. menntamálaráðherra með góðar fréttir frá fundi sínum við kollega sinn í Bretlandi.