149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[16:55]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að reyna að forðast það að ræða orkupakka þrjú og EES-málin þar sem þau eru ekki beint til umræðu. Þetta er engu að síður áhugaverð umræða sérstaklega þegar þingmenn Miðflokksins koma upp og ræða þessi mál þar sem formaður þess flokks var eini ráðherrann sem stóð raunverulega fyrir því að fara í viðræður við Breta um möguleika á slíku. En að skýrslu utanríkisráðherra.

Mig langar að byrja á að þakka kærlega fyrir þessa skýrslu. Hún er skýr, greinargóð og efnismikil. Það er líka voðalega gott þegar maður er hálfnaður með skýrsluna að átta sig á því að það er til fínn útdráttur úr henni, vil hrósa því sérstaklega. Ég geri ráð fyrir því að hann sé ekki síst til að efla vitneskju almennings um það mikilvæga starf sem unnið er í utanríkisráðuneytinu, Ég tel að þessi mikilvæga skýrsla sem hér liggur fyrir okkur sé ekki síst vottur um sjálfstæði Íslands, að hér fari frjálst og fullvalda ríki sem tekur þátt í alþjóðasamstarfi. Það er einmitt vegna þess að við erum frjálst og fullvalda ríki sem við getum gert það. Við erum þjóð á meðal þjóða. Við höfum margt fram að færa og við gerum það bara býsna vel. Mig langar að þakka hæstv. utanríkisráðherra og starfsliði hans bæði hér heima og heiman fyrir þeirra störf. Utanríkisþjónustan og utanríkisráðuneytið er næstminnsta ráðuneytið okkar þannig að ekki er það mjög frekt á fjárlögum í stóru myndinni en þar er unnið gott starf fyrir takmarkað fé. Ég er alls ekki að lofa meira fé með þessum orðum mínum, ég vil bara að ráðuneytið haldi áfram að vinna þessa góðu vinnu. Stór hluti af þessu fé, um helmingur, fer í þróunarsamvinnu og til alþjóðastofnana og það er líka vel og þar meira að segja stefnum við að því að gera enn betur.

Ég hef því miður ekki mikinn tíma til að fara yfir skýrsluna, hún er eins og ég segi efnismikil og hér í dag hefur verið komið inn á margt gott. Mig langaði þó sérstaklega að nefna norðurslóðamálin og mikilvægi þeirra. Við erum að stíga mjög spennandi skref með því að taka við formennsku í Norðurslóðaráðinu og mér finnst mjög mikilvægt að við nýtum það vel. Ég er ánægð með þau drög að verkefnum og þær yfirlýsingar sem hafa komið frá ráðuneytinu um hvernig það ætlar að nýta þetta ár sitt í formennskunni. Ekki síst finnst mér mikilvægt að ýta undir vísinda- og rannsóknasamstarf á sviði norðurslóðamála, á sviði umhverfis- og auðlindamála og þá sérstaklega þegar kemur að hafinu.

Ég hef miklar væntingar til þess að við getum í framtíðinni orðið enn stærri og meiri í því að hýsa rannsóknar- og vísindasamstarf og nýsköpun á sviði norðurslóðamála og umhverfismála. Ég held að hér séu bara, virðulegur forseti, ég leyfi mér að orða það svona, bullandi tækifæri fyrir Ísland og ekki síst í ljósi þess að framtíðarhagvöxtur okkar verður drifinn áfram af vísindauppgötvunum, rannsóknarsamstarfi og nýsköpun. Þarna held ég að séu stór og mikil tækifæri og mér sýnist við nýta þau vel og ég vil hvetja alla sem að málinu koma að nýta þau í hvívetna.

Þá langar mig líka að nefna það sem kom fram í ágætisinnleggi frá hv. þm. Birgi Þórarinssyni varðandi alþjóðastarf þingsins, að við mættum örugglega stundum leggja í meiri umræðu um það. Nú tek ég þátt í alla vega tvennu slíku. Ég sit í Íslandsdeild ÖSE, þingmannasamtakanna, og svo í Vestnorræna ráðinu. Það eru örugglega fleiri vettvangar sem við gætum verið áberandi á. Þegar kemur að þessu eins og öllu öðru þá þarf auðvitað að forgangsraða. Ég held að það sé ástæða til þess að líta stundum yfir þennan lista, það alþjóðasamstarf sem þingið tekur þátt í, og velta fyrir sér hvort það sé í einhverjum tilfellum ástæða til að breyta til. Hvort það sé ástæða til að færa mannskap úr einhverju alþjóðasamstarfi yfir í annað í einhvern tíma, við séum þá fylgja eftir einhverjum áherslum okkar eða þess háttar. Oft og tíðum er það auðvitað markað frá alþjóðasamtökum hvað við eigum marga fulltrúa. Það er ekki eins og það sé alltaf okkar val hvað við eigum marga fulltrúa í þessu samstarfi. Oft er það þó þannig að ríki geta sent fleiri fulltrúa þótt atkvæðarétturinn sé ekki sá sami. Ég held að það sé bara holl og góð umræða sem við ættum að taka upp reglulega.

Þá langar mig að minna á að það er svo mikilvægt að við notum rödd okkar þegar við erum erlendis. Ég veit að hæstv. ráðherra gerir það að sjálfsögðu og við þingmenn höfum oft mikið svigrúm og fáum tækifæri til að koma á framfæri okkar hugðarefnum og hagsmunamálum Íslendinga. Þess vegna fannst mér mikilvægt þegar hæstv. utanríkisráðherra bauð fulltrúum í alþjóðasamstarfi til sín í ráðuneytið og fór yfir áherslur og ég held að það mætti gera jafnvel meira í því að ýta undir frekara samstarf utanríkisráðuneytisins og sérfræðinga þess við þingmenn sem sinna alþjóðasamstarfi. Það er svo mikilvægt að við notum rödd okkar. Ég nefni súrnun sjávar til að mynda. Það eru ekki öll ríki að ræða um mikilvægi þess að við rannsökum og skoðum það mál frekar. Fyrir meginlandsríki sem eiga jafnvel ekki land að sjó er þetta ekki stórt mál en þetta er samt stórt mál fyrir öll ríki á þessari jarðarkúlu. Við þurfum að ýta á og fara yfir okkar áherslumál og kannski má líka með einhverjum hætti orða það svo að við séum að markaðssetja okkur með einhverjum hætti. Í því sambandi vil ég sérstaklega koma inn á kynjajafnrétti. Utanríkisstefna Íslands hefur sérstaklega tekið mið af því, er eitt hryggjarstykkið í utanríkisstefnu Íslands, og ég held að það sé vel. Það er mikilvægt að halda því til haga og ég held að við getum öll gert meira í því að nýta rödd okkar.

Ég held í ljósi tímaskorts að ég hafi þetta ekki lengra, en ég hlakka til umræðu um EES-mál þegar í fyrsta skipti verður lögð fram sérstök skýrsla um þau, ég hygg að við ræðum það 14. maí. Þá getum við talað um það mikilvæga samstarf sem EES-samstarfið er og svo fáum við auðvitað næg tækifæri til að ræða orkupakkann og fara yfir allar staðreyndir í því máli síðar.