149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og málefnalega ræðu. Við erum sammála í mjög mörgu og örugglega flestu en eðlilega erum við ekki sammála í öllum málum. En mér fannst margt einstaklega gott hjá hv. þingmanni.

Ég held að hv. þingmaður hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún talaði um jafnréttismál, sem eru gegnumgangandi í öllu okkar starfi. Auðvitað erum við öll sendiherrar Íslands en utanríkisþjónustan talar eðli máls samkvæmt fyrir þessu. Hv. þingmaður orðaði það ágætlega þegar hún sagði að það væri holur hljómur ef ekki væri sannfæring hjá þeim aðilum sem tala fyrir ákveðnum málstað.

Það er ofsalega gaman að segja frá því að þegar maður talar við stjórnmálamenn annars staðar áttar maður sig á því að við erum komin miklu lengra, vil ég segja, en margar aðrar þjóðir.

Ég var að velta því fyrir mér hvernig maður nálgast þetta þegar maður talar við kynbræður sína sem eru með öðruvísi viðhorf. Ég nota setningu sem ég held að við getum öll notað. Það hefur mikið breyst á undanförnum áratugum hjá okkur og auðvitað hefur baráttan verið í gangi miklu lengur. Ég þekki engan sem vill fara til baka. Ég hef aldrei heyrt stjórnmálamann segja: Heyrðu, þetta er komið of langt. Við þurfum að snúa til baka. Hins vegar vitum við að við getum gert margt miklu betur og jafnréttismálin eru fyrir bæði kynin.

Eitt verkefni sem ég lít til í jafnréttismálum er staða ungra drengja. Og viti menn, margar þeirra þjóða sem við berum okkur saman við, kannski flestar, eiga við sama vanda að etja. Þannig að þetta er eilífðarmál.

En við vildum, og ég vona að það takist vel og held að við eigum að gera það almennt, byrja að reyna að taka til heima hjá okkur, ekki að ég sé að segja að það séu einhver sérstök vandamál en hv. þingmaður hitti naglann á höfuðið þegar hún sagði: Það verður að vera sannfæring á bak við það þegar við erum að tala fyrir málstað.