149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bergþór Ólason er að kynna þetta mál fyrir mér núna ásamt öðrum þeim þingmönnum sem hér eru. Ég veit ekkert um þetta. Ég veit hins vegar að ég er tilbúinn að leggja mjög mikið á mig til að sjá til þess að Ísland gangi ekki í Evrópusambandið. Ég vissi ekki til þess að nein hætta væri á ferðinni, en hv. þingmaður er í raun að segja að hann hafi áhyggjur af því, ef ég skil rétt, að þeir aðilar sem héldu um málið á sínum tíma hafi ekki komið þessu til skila með afgerandi hætti. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo. Ég held hins vegar að það sé rétt að þeir fái að svara fyrir það. Þetta snýr að forystu Miðflokksins. Þeir verða í raun að útskýra það þegar þeir gengu fram, að vafi hafi leikið á því hvað þeir voru að gera. Við í utanríkisráðuneytinu munum veita öll þau gögn sem hv. þingmaður og aðrir þingmenn biðja um. Eins og ég nefndi þá hef ég ekki orðið var við þessa túlkun hjá Evrópusambandinu, svo að ég segi það hreint út. En hv. þingmaður er í raun að upplýsa það eða halda því fram — ég hef ekki tækifæri til að rannsaka málið á þessum tveimur mínútum, fjórum samanlagt, sem ég er í andsvörum. En þetta er gagnrýni á ríkisstjórn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það er ekki hægt að skilja þetta neitt öðruvísi, þetta er gagnrýni á hana. Ég ætla ekki að kveða upp neinn dóm um það hér, engan. Mér finnst rétt að fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra fái að skýra sitt mál, af hverju þetta gæti hugsanlega komið upp. Ég var svo sannarlega ekki á vettvangi þegar þessi afgreiðsla fór fram.

Hv. þingmaður, Manchester United aðdáandi, biður mig að taka þetta með. Ég tel það ekki nema sjálfsagt.