149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og fagna því að sjálfsögðu að ráðherra átti fund með utanríkisráðherra Filippseyja og vona að tekist hafi að skýra mál okkar betur.

En ég hef aðeins kynnt mér þetta mál og rætt við samfélag Filippseyinga hér á Íslandi. Það eru ýmsar upplýsingar sem maður hefur fengið í þessu sambandi sem mér finnst skipta máli. Í fyrsta lagi nýtur forsetinn á Filippseyjum, sem hefur staðið fyrir þessu átaki, ótvíræðs stuðnings Filippseyinga, sinnar þjóðar. Það hefur orðið mikil breyting á þessu landi eftir að þetta átak hófst.

En að sjálfsögðu fordæmum við — og ég tek undir það með hæstv. ráðherra — aftökur án dóms og laga. Það fer tvennum sögum af þeim efnum og það er staðreynd í þessu að það hefur verið dreift heilmiklu af falsfréttum um stöðu mála og þá sérstaklega þessar svokölluðu aftökur án dóms og laga. Því miður hefur mönnum orðið ágengt í þeim efnum, hvað falsfréttir varðar. Við sjáum það bara víða. Við sjáum það bara í Austur-Evrópu hvernig Rússar hafa nýtt þennan miðil.

Þannig að í ljósi þess árangurs sem hefur náðst í þessu landi og í ljósi þeirra upplýsinga sem maður fær frá borgurum þessa lands, hefði ég talið að við hefðum átt að stíga varlega til jarðar í að koma á framfæri yfirlýsingu með þessum hætti. (Forseti hringir.) Ég tel að við hefðum átt að gera það (Forseti hringir.) þá með öðrum hætti, ef svo bæri undir, en ekki á þessum vettvangi.