149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[18:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og vil kannski í þessu síðasta andsvari víkja aðeins að falsfréttum, sem ég hef nú rætt áður úr þessum ræðustól.

Ég sakna þess svolítið að ég hef alla vega ekki fundið í þessari skýrslu að það hafi verið neitt minnst sérstaklega á hagsmunagæslu Íslands þegar kemur að falsfréttum. Vegna þess að það er nauðsynlegt að það sé fylgst með falsfréttum, þær séu skráðar, það séu skráð upprunalönd slíkra frétta og að við höfum einhvers konar viðbragðsáætlun hvað þær varðar.

Við þekkjum þetta í okkar samfélagi þegar erlendir kröfuhafar nýttu sér samfélagsmiðlana til þess að koma á framfæri ýmsum skilaboðum í aðdraganda stöðugleikasamninganna og aðdraganda kosninga, sem við þekkjum líka. Það voru óbein eða bein afskipti af kosningum með birtingu auglýsinga í fjölmiðlum o.s.frv. Þannig að það eru ýmsar leiðir notaðar í þessum efnum og þar eru samfélagsmiðlarnir náttúrlega sérstaklega nytsamir.

Ég hefði talið að það væri einhvers konar viðbragðsteymi í samstarfi við ríkislögreglustjóra innan utanríkisráðuneytisins sem hefði einhvers konar yfirsjón yfir þetta og fylgdist með falsfréttum. Norðurlönd hafa orðið fyrir barðinu á falsfréttum. Finnar hvað varðar afskipti af kosningum. Þar hafa Rússar komið við sögu.

Þannig að ég sakna þess svolítið í skýrslunni að það sé aðeins farið inn á að minnast á (Forseti hringir.) þetta mikilvæga mál.