149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

sjálfstætt starfandi aðilar í heilbrigðiskerfinu.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kannast ekki við hina miklu viðhorfsbreytingu sem var rauði þráðurinn í þessari ræðu. Ég get hins vegar tekið undir með hv. þingmanni um að það skiptir miklu máli að við náum að auka skilvirkni í heilbrigðiskerfinu þannig að við losnum við biðlista. Það er stórt heilsufarslegt mál en líka mjög mikilvægt fyrir vinnumarkað og fleiri þætti að við komum sem fyrst niður biðlistunum fyrir liðskiptaaðgerðir. Þetta er hins vegar mjög flókið mál og það verður að horfa á það með heildstæðum hætti. Það er ekki hægt að hafa einhverja rörasýn á einn biðlista og segja: Er ekki hægt að leysa þennan biðlista? Það þarf að spyrja um orsakirnar fyrir biðlistunum. Við vitum t.d. af því að á Landspítalanum erum við með allt of margt eldra fólk sem hefur ekki fengið úrlausn sinna mála fast inni á spítalanum. Það er sérstakt vandamál og er hluti af ástæðunum fyrir því að það myndast biðlistar annars staðar.

Það sem ég hefði gjarnan viljað að við gerðum er að horfa oftar á heilbrigðiskerfið út frá hagsmunum sjúklinganna fyrst og fremst. Ég held að við höfum of oft fest okkur í því að horfa á heilbrigðiskerfið jafnvel út frá hagsmunum einstakra stofnana eða kerfisins. Við höfum séð viðleitni í þessa átt t.d. í heilsugæslunni þar sem við látum fjármagn fylgja sjúklingum á höfuðborgarsvæðinu. Með þeirri hugmyndafræði held ég að við gætum losað mikla krafta úr læðingi. Hér skipta hjúkrunarheimilin máli út af ástandinu á Landspítalanum og ég held að við ættum t.d. að spyrja okkur að því hvort það sé til lengri tíma góð eða skynsamleg stefna hjá okkur að láta það ráðast af fjárlögum (Forseti hringir.) hvers tíma hvaða fjármagn er til ráðstöfunar til uppbyggingar á hjúkrunarheimilum. Ef við myndum bara festa réttinn við þá sem (Forseti hringir.) þurfa á hjúkrunarheimili að halda þurfum við ekki að velta því endilega mikið fyrir okkur hversu mikið fjármagn er á fjárlögum hvers tíma (Forseti hringir.) heldur láta markaðslausnir koma hér að notum.