149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

sjálfstætt starfandi aðilar í heilbrigðiskerfinu.

[10:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við greiddum ekki atkvæði með tillögunni á sínum tíma vegna þess að hún var ekki nein frambúðarlausn á málinu og leysti ekki úr þeim álitaefnum sem við höfum oft verið að ræða hér, sem snúa að heimildum Sjúkratrygginga til að gera samninga við einkareknar stofur. Þar hefði viðbótarfjármagn í sjálfu sér engu skipt og ekki vandamálið heldur það, sem ég hef nefnt hér, að við erum með ákveðið ástand á Landspítalanum sem tengist síðan aftur uppbyggingu hjúkrunarrýma í landinu. Ég vil gerast talsmaður þess að við reynum að skilgreina betur réttinn sem felst í sjúkratryggingum og horfum meira á heilbrigðiskerfið út frá réttindum sjúklinganna en festum okkur ekki í því hvar lausnirnar verða til. Það skiptir máli vegna þess að ef við værum ekki með opinbert kerfi heldur eingöngu almennt einkarekið heilbrigðiskerfi á landinu þyrfti fólk að kaupa sér sjúkratryggingar. Þá held ég að það væri nokkuð ljóst, í skilmálum þeirra keyptu sjúkratrygginga, hver réttindi viðkomandi sjúklings væru, (Forseti hringir.) það væri skilgreint og skrifað út, en þetta er kannski dálítið óljóst í opinbera kerfinu í dag.