149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

fjárframlög til SÁÁ.

[10:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það var afar skýrt þegar Alþingi tók ákvörðun um viðbótarfjármagn. Það var eyrnamerkt og skilgreint af Alþingi, af fjárlaganefnd og við afgreiðslu í þinginu. Ég er fegin að það er þannig. Það er rétt að það sé þannig, að Alþingi geti tekið ákvörðun um að forgangsraða fé með tilteknum hætti og það gerði Alþingi við þessa atkvæðagreiðslu. Þannig á það að vera og þegar Alþingi skilar vilja sínum á svo afgerandi hátt til ráðherra á hverjum tíma ber ráðherra (Gripið fram í.) að fylgja ákvörðun Alþingis. Þannig er það.

Fullyrðingar um að greiðslur til Sjúkrahússins Vogs hafi dregist saman eru ekki réttar. Það er sérstakt áhyggjuefni að stjórn SÁÁ hafi kosið að draga úr framboði á þjónustu og ég fæ ekki séð að sú ákvörðun standist eða styðjist við nein eðlileg rök.