149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[12:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Við ræðum, eins og fram hefur komið, tillögu til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til ársins 2023. Ég vil í þessari ræðu minni aðeins halda áfram þar sem frá var horfið í fyrri umræðu þar sem ég ræddi svolítið eitt af áherslulöndunum okkar í tvíhliða samstarfi, Palestínu.

Ég vil í upphafi byrja á því að þakka hinu ágæta starfsfólki utanríkisráðuneytisins sem hefur unnið að þessum málaflokki og hefur staðið sig mjög vel að mínu mati. Það hefur gert marga góða hluti á þessu sviði svo eftir er tekið á alþjóðavettvangi, myndi ég segja. Einnig vil ég þakka störf nefndarinnar sem hafa verið ágæt. Það er ákaflega dýrmætt í þessum málaflokki að við eigum gott og hæft starfsfólk sem vinnur bæði hér heima og erlendis á vettvangi. Það fer gott orð af íslenskum starfsmönnum sem starfa erlendis, ég þekki það sjálfur. Það er okkur mjög dýrmætt og dýrmætur mannauður sem við eigum þar.

Það segir hér á bls. 4 varðandi þverlæg málefni að nálgun íslenskra stjórnvalda í allri þróunarsamvinnu byggist á mannréttindum með vísun í alþjóðleg viðmið í mannréttindamálum. Síðan er rætt um jafnrétti kynjanna, sem grundvallast á mannréttindum, það verði áfram forgangsmál í þróunarsamvinnu á vegum Íslands. Ég fagna að sjálfsögðu þessari áherslu sem er mjög mikilvæg.

Þá vildi ég koma að málefnum Palestínu vegna þess að það er land sem þarf svo sannarlega á aðstoð að halda. Það sem skiptir líka máli í þessu sambandi er að orðstír okkar er góður meðal palestínskra stjórnvalda og Palestínumanna almennt. Þeir líta upp til Íslands. Við erum eins og við þekkjum fyrsta vestræna ríkið sem samþykkti sjálfstæði Palestínu og Palestínumenn kunna mjög svo að meta það. Það er mjög mikilvægt í þessu starfi öllu að hafa góðan orðstír. Hann er gulli líkastur, ef svo má að orði komast, þegar kemur að þessum málaflokki. Þarna er fólk sem hefur gengið í gegnum miklar hörmungar og erfiðleika og vantraust almennt er mikið meðal þessa fólks. Við þekkjum það náttúrlega að nálægðin við Ísrael hefur mikil áhrif og sú langa og mikla deila sem ríkir á milli þessara tveggja ríkja hefur veruleg áhrif í Miðausturlöndum, en það er líka jákvætt að við eigum góð samskipti við Ísrael og mikilvægt til þess að við getum tekið samtalið við stjórnvöld í Ísrael um það sem betur má fara í samskiptum við nágrannaríkið Palestínu.

Ég hef verið talsmaður þess, frú forseti, að við látum meira að okkur kveða þegar kemur að friðarumleitunum. Ég tel að við eigum þar mjög góða möguleika og ekki síst vegna þess að við erum herlaus þjóð. Við erum þjóð án vopnaframleiðslu. Það skiptir verulegu máli þegar kemur að friðarumleitunum. Ég fullyrði það hér að þó að við séum lítil þjóð þá erum við stór þjóð á alþjóðavettvangi þegar kemur að friðarmálum. Þetta er sérstaða sem við ættum svo sannarlega að nýta okkur og vera óhrædd við að nýta okkur. Þá vísa ég til þess að traustið skiptir verulegu máli. Hvað varðar deilu Ísraelsmanna og Palestínumanna þá bera báðar þessar þjóðir virðingu fyrir okkur. Við vorum, eins og ég sagði, fyrst vestrænna þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu, en við skiptum líka verulegu máli þegar stofnun Ísraelsríkis átti sér stað 1948 og Ísraelsmenn líta upp til okkar í þeim efnum. Þarna er því ákveðið tækifæri sem mér finnst að sé vannýtt og við ættum að stíga frekari skref í því að undirbúa það að reyna að koma að einhvers konar friðarumleitunum. Ég er kannski ekki að tala um deiluna í heild sinni sem slíka, heldur eru ákveðin málefni sem hægt er að leggja sig fram um í samtali við bæði stjórnvöld Palestínu og stjórnvöld Ísraels. Ég nefni t.d. ferðafrelsi. Stór hluti Palestínumanna býr ekki við ferðafrelsi. Þeir sem búa á Vesturbakkanum, í Ramallah, Nablus, Jenin og fleiri borgum, þurfa, ef þeir ætla að ferðast til útlanda, að ferðast til Jórdaníu til að geta farið utan. Þeir þurfa að leggja á sig töluvert ferðalag til að geta farið til útlanda, í staðinn fyrir það ef þeir hefðu heimild til að fljúga einfaldlega frá Tel Aviv. Það tekur ekki nema hálftíma fyrir Palestínumenn á Vesturbakkanum að keyra til Tel Aviv, ef það væri heimilt. En hins vegar tekur það heilan dag, og stundum rúmlega það, jafnvel tvo daga, að ferðast til Jórdaníu. Þarna eru sjálfsögð mannréttindi sem við getum svo sannarlega talað fyrir og átt samtal við þessi stjórnvöld um það hvort ekki sé hægt að liðka til í þessum efnum. Það þarf alltaf í svona málum þriðja aðila til þess að koma að málum og reyna að finna lausnir.

Ég vil líka nefna annað sem ég tel að við ættum að skoða, það er atvinna ungs fólks meðal Palestínumanna. Það ríkir mjög mikið atvinnuleysi á Vesturbakkanum og á Gaza. Það vill svo til að Palestínumenn eru vel menntaðir, þeir halda því mjög til haga og eru stoltir af því. Mjög margt ungt fólk er með háskólagráðu en að háskólanámi loknu þá er mjög lítið um atvinnutækifæri og atvinnuleysi er mikið meðal ungs fólks. Hins vegar er þörf fyrir mikið af þessu unga fólki í störf í Ísrael. Mér finnst að við ættum að reyna að tala fyrir því að unga fólkið fái greiðari aðgang að atvinnu í Ísrael. Það er mjög þungt kerfi fyrir Palestínumenn að fá atvinnu í Ísrael. Leyfisveitingar og umsóknir taka marga mánuði, upp í ár, og mjög takmarkaður fjöldi er veittur af atvinnuleyfum. Þótt þörf sé fyrir starfsfólk gengur mjög erfiðlega að fá Ísraelsmenn til að liðka til í þessum efnum. Þetta skiptir verulegu máli.

Þegar rætt er við unga fólkið í Palestínu þá eru áherslur þess alveg þær sömu og hér heima á Íslandi, þ.e. fólk vill koma sér upp heimili, það vill hafa atvinnu og stofna fjölskyldu. Það á hins vegar mjög erfitt með það vegna þess að atvinna er af mjög skornum skammti fyrir þetta unga fólk. Ég held að við gætum látið gott af okkur leiða með því að eiga samtal við ísraelsk stjórnvöld um þetta. Þetta er félagslega mjög mikilvægt og það eru ýmis og mörg vandamál sem skapast vegna atvinnuleysis, sérstaklega á þessu svæði, og mjög brýnt að reyna að bæta úr þessu. Þarna höfum við tækifæri sem við ættum að nýta okkur og væri óskandi að við gætum látið að okkur kveða í þessum efnum. Við eigum að vera óhrædd við það að nálgast ísraelsk stjórnvöld með þetta.

Síðan langar mig að koma inn á annað þar sem ég tel að við gætum látið að okkur kveða í þessum samskiptum, það eru ættleiðingar. Það vill svo til að í Palestínu eru fjölmörg heimili fyrir munaðarlaus börn. Það eru fjölmörg börn sem eru munaðarlaus í Palestínu og ástæðan á m.a. rætur að rekja í þeirri menningu sem þar ríkir. Þá komum við svolítið að þessarar áherslu okkar sem er kvenfrelsi. Það vill þannig til að ef stúlkur verða barnshafandi utan hjónabands hjá Palestínumönnum, og það á reyndar við um Arabalöndin almennt, þá er það afar illa séð. Þessar stúlkur fæða sín börn en verða að gefa þau frá sér vegna þess að fjölskyldur þeirra viðurkenna ekki og taka ekki að sér þessi börn sem eru þá óskilgetin eins og sagt er. Ég hef heimsótt svona munaðarleysingjaheimili í Palestínu. Aðbúnaðurinn var ágætur en það var mjög átakanlegt að sjá bara fjöldann. Það eru dæmi þess að þegar starfsmenn koma til vinnu að morgni þá sé barn í vöggu fyrir utan dyrnar sem er búið að yfirgefa og þess bíður að verða alið upp á munaðarleysingjaheimili.

Ég tel að þarna gætum við reynt að liðka til. Við gætum átt samtal við palestínsk stjórnvöld um að greiða fyrir ættleiðingum hingað til lands frá Palestínu. Það er þörf hér á Íslandi. Það eru, samkvæmt síðustu tölum sem ég hef heyrt, rúmlega 50 manns á biðlista eftir ættleiðingum hér á Íslandi þannig að þarna væri svo sannarlega hægt að koma til hjálpar. Ég tel að þarna sé tækifæri sem við gætum nýtt okkur og reynt að greiða fyrir þessu í ljósi þess að við eigum gott stjórnmálasamband við Palestínu.

Síðan fagna ég því að sjálfsögðu að við styrkjum alþjóðlegar stofnanir eins og t.d. UNRWA, sem starfar fyrir palestínska flóttamenn, er eiginlega flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir palestínska flóttamenn í fimm löndum. Við höfum stutt ágætlega við bakið á þeim með fjárframlögum og útsendum starfsmönnum, sem hafa staðið sig vel og mikil þörf er fyrir. Ég held það sé líka nauðsynlegt í þessu sambandi að við skoðum aðeins hvar þörfin er mest. Ég þekki það t.d. frá þessari stofnun að mikil þörf er fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Álag á það er mjög mikið. Þessi stofnun sem ég nefndi rekur heilbrigðiskerfi, félagslegt kerfi og menntakerfi fyrir rúmlega 5 milljónir palestínskra flóttamanna í fimm löndum. Þetta er stærsta stofnun Sameinuðu þjóðanna sem er rekin að stærstum hluta fyrir styrktarfé. Hún gerir mjög góða hluti og mjög mikilvæga í því erfiða ástandi sem ríkir á þessu svæði. En það er ekki síst á sviði heilbrigðismála sem þörfin er mest. Álagið á hjúkrunarfólk og lækna er gríðarlegt og t.d. niður á Gaza, á heilbrigðisstofnunum, heilsugæslum þar, tekur læknir á móti rúmlega 100 sjúklingum á dag. Einn sjúklingur fær sirka þrjár mínútur hjá lækni. Álagið er því gríðarlegt og þarna held ég að við getum látið að okkur kveða með því að senda hjúkrunarfræðinga, ljósmæður t.d., mikil þörf fyrir þær á þessu svæði líka. Þetta er áhersluþáttur sem ég tel að við eigum að horfa til og auka okkar hlutdeild í.

Það er auk þess annað sem ég vildi nefna að lokum, frú forseti, í þessu samhengi. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínumenn starfar í Jórdaníu og Sýrlandi og Líbanon. Ég vil beina í lokin athyglinni að Líbanon vegna þess að þar er ástandið mjög erfitt í flóttamannabúðum. Stjórnvöld í Líbanon hafa ekki viljað greiða götu þessa flóttafólks. Það heldur því algjörlega einangruðu. Það fær ekki atvinnuleyfi í Líbanon og ástandið er almennt erfitt. Þarna er auk þess töluverður hópur kristinna flóttamanna í flóttamannabúðum sem hefur átt undir högg að sækja og sætt ofsóknum. Ég hef talað fyrir því, og gerði það hér í þessum ræðustól, að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því innan mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem við eigum sæti, að tala fyrir því að fordæma ofsóknir gegn kristnu fólki. Kristnir eru sá trúarhópur í heiminum sem sætir mestum ofsóknum. Ég held að þegar við tökum á móti flóttafólki hingað til lands — við höfum einmitt tekið á móti flóttafólki úr flóttamannabúðum frá Líbanon — þá horfum við svolítið til þessa kristna hluta vegna þess að hann sætir ofsóknum og hefur svo sannarlega þörf fyrir því að komast frá þessum stað. Það er nú þannig að aðlögun flóttamanna á Íslandi er öll mun auðveldari ef um kristna flóttamenn er að ræða. Ég er að sjálfsögðu fylgjandi því að við tökum á móti flóttamönnum hverrar trúar sem þeir eru, en aðlögunin er erfiðari. Það er staðreynd að þegar við tökum á móti flóttamönnum hingað til Íslands sem eru t.d. islamstrúar að öll aðlögun er erfiðari. Menningin er öðruvísi og trúin og þeir hafa átt erfiðara uppdráttar en þeir sem eru kristnir.

Ég tel að við ættum að skoða þennan þátt vegna þess að það er horft upp til okkar í þessum efnum, eins og ég segi, svo ég ljúki þessari ræðu minni, og borin virðing fyrir Íslandi á þessum vettvangi. Við njótum trausts. Það er ákaflega mikilvægt í þessu samhengi.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessa tillögu og þær upplýsingar sem koma hér fram og fagna því að sjálfsögðu að verið sé að auka framlög til þessa málaflokks. Það er eitthvað sem við eigum að sjálfsögðu að gera og við höfum algerlega efni á því sem vel megandi þjóð. Þörfin er víða mikil eins og komið hefur fram hér. Það er verið að gera góða hluti og það er að sjálfsögðu þakkarvert. En við eigum að halda áfram á sömu braut og bæta í.