149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Já, þetta er sem sagt fjórar konur af þúsund. En það er annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann um, varðandi gildistökuna 1. september 2019. Nú veit ég ekki hvort þingmaðurinn hefur fulla athygli á því sem ég er að spyrja um, en mig langar til að spyrja hvort meiri hluti nefndarinnar telji í raun og veru að tíminn fram að gildistökunni 1. september 2019, 100 dagar eða svo, muni duga heilbrigðisráðuneytinu til að undirbúa þessa breytingu á þokkalegan hátt, þ.e. að allir séu sem sagt á sama fæti, ef ég get orðað það þannig, strax 1. september. Ég hefði sjálfur talið, miðað við hvernig ríkið hreyfir sig, að það þyrfti ár jafnvel til að koma breytingu eins og þessari á koppinn. Mig langar því að spyrja hvort þessi skammi tími hafi ekki hringt neinum bjöllum hjá meiri hlutanum.