149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði nú ekki að fara að tala um næturlífið í Reykjavík, hvernig karlmenn eða konur hagi sér hérna á nóttunni. Ég held að það sé ekki neitt nýtt undir sólinni í því. Þegar það er í gangi eru það nú bara báðir aðilar sem taka þátt í því. Oftast er það svo að báðir aðilar taka þátt í því og bera ábyrgð á því.

Ég þekki nokkur dæmi þess að mjög ungar stúlkur hafi eignast börn (ÞSÆ: Já.)og ég veit hvernig þau börn eru í dag. Ég held að ekki nokkur maður hefði viljað að þau börn hefðu ekki komið í heiminn. Vegna þess að það er alltaf fallegasta fréttin: „Hún er barnshafandi.“

Það er alveg ótrúlegt að sitja hér og horfa á þessa þingmenn hér sem góna upp í loftið, hlæja að manni og tala svona um þessi mál sem eru afar viðkvæm — þau eru mjög viðkvæm fyrir stóran hluta þjóðarinnar, fyrir fullt af fólki sem getur ekki eignast börn.

Ég held að það að tala um þetta á þeim nótum að þetta sé bara einkamál þeirra kvenna sem séu óléttar og ef þær verði óléttar sé það einhverjum körlum úti í bæ að kenna. Þetta er bara ekki boðleg umræða, að tala um þetta á þessum nótum.

Þið megið alveg hlæja að þessu ef þið viljið. En mér finnst það bara ekki boðleg umræða að vera að tala um næturlífið og að stoppa einhverja kalla með smokkasjálfsölum.

Mér finnst það bara reyndar góð hugmynd. Það kannski kæmi í veg fyrir einhverjar af þessum 960 þungunum sem virðast ekki vera mjög tímabærar.