149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég vil nú bara, vegna þess að við eigum hér orðastað, leiðrétta þetta. Ég gerði á engan hátt tilraun til að stilla þessu upp eins og þetta væri einhvers konar samtal milli karla og kvenna, einhvers konar deilur milli karla og kvenna. Ég óska eftir að þingmaðurinn dragi það til baka ef hann var að leggja mér þau orð í munn.

Þar sem þingmaðurinn leggst gegn því að þetta frumvarp verði samþykkt og þar sem hann á sæti í velferðarnefnd og ég geri ráð fyrir að hann hafi verið viðstaddur, hafi hann sótt nefndarfundi, þegar sérfræðingar komu fyrir nefndina, þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi, fyrst hann er svona afgerandi í því að að sjálfsögðu eigi að heimila þungunarrof þegar um er að ræða nauðgun, spurt sérfræðingana að því hvernig eigi að færa sönnur á það eða hvort það sé nóg að konan greini frá nauðgun.

Þetta er ekki léttvægt, þetta er ekkert minni háttar mál. Það er ekkert minni háttar mál að missa barn. Það er heldur ekkert minni háttar mál að sækja um þungunarrof. Það er enginn að segja það. Þess vegna verður það líka mjög skrýtin umræða þegar þessu er stillt þannig upp að það séu tveir einstaklingar sem geti saman fóstur og eigi að taka saman ákvörðun um það, þegar, eins og þingmaðurinn segir sjálfur í nefndarálitinu, blómin eru misjöfn í garðinum. Sums staðar leynist illgresi sem beitir ofbeldi, jafnvel innan hjónabands. Það eru dæmi um að kona hafi ekki komist út af heimilinu í tæka tíð til að óska eftir þungunarrofi af því að hún er fangi á eigin heimili. (Forseti hringir.)Þetta segi ég af reynslu, hafandi starfað sem lögmaður á Íslandi, lögmaður á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis og heimilisofbeldis. (Forseti hringir.) Mig langaði bara að teikna upp þessa mynd, að börn og fóstur eru ekki bara getin í hamingjusömum hjónaböndum eða samböndum.