149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:51]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er í sjálfu sér ekki að gera ágreining um það og ætla mér ekki þá dul að fara að hafa einhverja viti borna skoðun á því hvar mörkin liggja varðandi lífvænleika fósturs. Ég var einfaldlega að vitna til þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands að það væri kannski varlegra, ég notaði orðið hæverskara áðan, að færa þessi mörk aðeins fjær þessari óskaplega nákvæmu markalínu sem hér var dregin, 21 vika og sex dagar. Það þyrfti kannski ekki að ganga svo nærri þessari markalínu. Það er í línu við það sem ég hef sagt hér að öðru leyti að ósk mín eða tillaga eða hvatning er fyrst og fremst í þá veru að það verði farið aðeins hægar yfir og af meiri hæversku.