149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:15]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri það á ræðu hv. þingmanns að honum þykir ekki tilefni til að breyta núverandi löggjöf og vill halda henni eins og hún er og spyr hann hver tilgangurinn sé með því að breyta henni. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður setji það í samhengi við umsögn Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem hann vísaði í, þar sem talað er um að lækka ætti vikufjöldann í fyrirliggjandi frumvarpi niður í 18 vikur, hvort honum finnist tilefni til þess.

Mér hefur fundist gæta ákveðins misskilnings hjá andstæðingum frumvarpsins um hvernig staðan er raunverulega í dag. Hún er raunverulega þannig að konur geta farið í þungunarrof fram á 22. viku ef um alvarlega fæðingargalla er að ræða eða ef líf eða heilsa konunnar er í húfi. Það hefur líka verið talað um ef um alvarlega vansköpun er að ræða og hefur það þótt lýsa miklum fötlunarfordómum að hafa undanþágu frá gildandi lögum til að bregðast við ef fötlun greinist í fóstri og óæskilegt af löggjafanum að setja það sem sérstaka undanþágu við hina almennu reglu að fara megi í þungunarrof ef fóstur er fatlað en ekki ef það er ófatlað. Sú regla, eins og hún er í lögunum núna, þykir innihalda fötlunarmismunun.

Ég spyr hv. þingmann hvort honum finnist ekki tilefni til að afnema þá mismunun úr lögunum. Er það ekki eitt og sér næg ástæða til að endurskoða löggjöfina, að bregðast við samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og afnema fötlunarmismunun úr lögunum? Eins og staðan er núna eru einu ástæðurnar fyrir því að leyft er að fara fram yfir mörkin þau að barn eða fóstur sé alvarlega fatlað eða lífi konunnar stefnt í voða.