149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[20:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal bara útskýra hvað mér gengur til með því að lesa upp úr þessu opna bréfi. Ég hefði haldið að það væri algerlega augljóst. Hv. þingmaður hefur staðið hér í pontu og talað um að fólk sé að grípa einhver dæmi úr lausu lofti, einhver fáránleg jaðartilvik. Ég er að drepa niður í bréf sem var skrifað til hv. þingmanns, með einlægri bón til hennar, um að taka tillit til þeirra kvenna sem geta ekki fengið þungunarrof eftir 16. viku meðgöngu á Íslandi í dag þrátt fyrir bráða þörf. Ég er að spyrja hv. þingmann: Hvað vill hún gera í þeim tilfellum? Heldur hv. þingmaður virkilega að konur fari í þungunarrof eftir 16. viku meðgöngu að gamni sínu, af engri ástæðu, af því þær héldu í 16 vikur að þær væru alveg til í þetta en föttuðu svo á 17. viku að þær nenntu þessu ekki, og stökkvi þá bara á kvennadeildina? Er það afstaða hv. þingmanns að konur séu ekki skynsamari eða ábyrgari verur en svo?

Ég spyr hv. þingmann út af þessu bréfi, út af aðstæðum þeirra kvenna sem þessi fæðingarlæknir finnur sig knúinn til að skrifa um í bréfi til hv. þingmanns, vegna þess málflutnings sem hún hefur haft í frammi um frumvarpið og annað. Mér heyrist á hv. þingmanni að hún skilji ekki að verið sé að meina konum sem raunverulega þurfa á þungunarrofi að halda um þungunarrof vegna þess að þær uppfylli ekki skilyrði núgildandi löggjafar. Skilur hv. þingmaður að það er verið að meina 13 ára börnum um að fara í þungunarrof vegna þess að þau uppfylli ekki skilyrði um tíma, ekki eftir 16. viku? (IngS: Komdu með dæmi um það.)

Ég var að lesa upp dæmi fyrir hv. þingmann. Hún hlýtur að hafa lesið opið bréf til sín eins og hún sagði. Þar eru ítrekuð dæmi og m.a. um þessa 13 ára stúlku sem hv. þingmaður var svo hneyksluð á að skyldi vera tekin inn í umræðuna.

Við erum að tala um börn sem eru neydd til að ganga með börn. (Forseti hringir.) Er það í lagi í augum hv. þingmanns? Er það í alvörunni í lagi?