149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[20:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir andsvarið, hún veit betur en ég hvað ég meina, hvað ég segi og hvað ég hugsa. Það er alveg ótrúlegt hvað hv. þingmaður er orðin rammskyggn. En ég hef aldrei nokkurn tíma í neinni orðræðu talað um að ekki eigi að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda, enda hefur engum verið neitað um fóstureyðingu, ekki einum einasta einstaklingi síðustu tvö árin (ÞSÆ: Jú.) — engum síðustu tvö árin. (ÞSÆ: Jú.) Þá er bara alveg rosalega dapurlegt að landlæknisembættið skuli ekki hafa betri skráningu en raun ber vitni og segi mér hreinlega ósatt um það sem ég spyr um og segi hreinlega ósatt um það sem það birtir á sinni eigin heimasíðu, hjá landlæknisembættinu. En eins og ég segi, það er skýrt og skorinort að nema eitthvað komi upp á, eins og kemur fram í 2. mgr. 10. gr. — og hv. þingmaður ætti alveg að geta lesið þetta ekki síður en ég og jafnvel betur — skuli fóstureyðing aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngu, ekki nema að fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í því meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu. Einnig skal fóstureyðing leyfileg eftir 16. viku séu miklar líkur á vansköpun og öðru slíku.

Ef 13 ára gamalt barn er að ganga með barn, eins og virðist vera uppáhaldsdæmisaga hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, hlýtur það að koma til álita lækna að meta hvort barn er tilbúið til að ganga með barn. Ég vil leyfa mér að efast um það, hv. þingmaður, að nokkur læknir myndi mæla með því að svo ungt barn væri látið fæða barn.