149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[21:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætlaði aðeins að fylgja eftir fyrirspurn hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur. Klukkan er orðin dálítið margt. Ég vona að ég haldi rænu hérna í pontu. En ég velti því fyrir mér, út af því eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir minntist á, er í gildandi lögum kveðið á um að ef fóstureyðing er framkvæmd eftir 16. viku skuli það ekki vera nema ef lífi og heilsu konu sé stefnt í hættu eða miklar líkur séu á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs.

Þannig að þetta undanþáguákvæði er til staðar.

Við áttum mikla umræðu um þetta í hv. velferðarnefnd. Það var mikið rætt hvort þyrfti að færa vikufjölda niður. Það var rætt um 18 vikur eða 20 vikur. En þá stóð alltaf eftir þessi spurning: Hvað gerum við þá ef við fjarlægjum þessar undanþágur úr lögunum, sem við verðum að gera? Við getum ekki haft fötlunarfordóma í lögunum. Hvernig getur kona þá fengið þungunarrof eftir 18. viku ef hún er að fara í sónar í 20. viku þar sem koma fram kannski mjög alvarlegir gallar á fóstri? Oft og tíðum eru þetta hjartagallar, miðtaugakerfisgallar, nýrnagallar sem koma þarna fram.

Þá er bara spurningin: Eigum við þá ekki að hafa það í boði fyrir konu að fara í þungunarrof á þessum tíma? Og nú er ég bara að tala um þær konur sem lenda í alvarlegum atvikum sem koma í ljós eftir 20 vikna sónar. Nú er ég ekki búin að taka inn í dæmið þær konur sem eiga við mjög erfiðar félagslegar aðstæður að stríða, sem við erum búin að ræða hérna og ég er viss um að hv. þingmaður hefur fylgst aðeins með umræðunni varðandi þær konur.

Erum við komin á þann stað, ef við förum að taka þetta niður í 18 vikur? Sumir eru bara þar. (Forseti hringir.) Ef við hreinlega tökum allar undanþágur út, erum við að fara að sníða einhverjar nýjar undanþágur inn í lögin til að reyna að taka utan um (Forseti hringir.) allan þann fjölda frávika og hugsanlegra undanþágutilvika sem til koma? (Forseti hringir.) Eða erum við bara að fara að segja við konur: Nei, þú verður bara að eignast barnið núna.