149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[21:28]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Að „krukka í“ málinu út frá tilfinningum einstakra þingmanna? Ég veit satt að segja ekki, frú forseti, hverju á að svara svona spurningu, vegna þess að ég held að á hverjum einasta degi stjórnist ég töluvert af tilfinningum mínum og taki töluvert mikið af ákvörðunum út frá tilfinningum.

Ég bara bið um að menn hlusti á viðhorf sem ég stend fyrir og mjög margir standa fyrir þegar við biðjum a.m.k. um að menn skilji hversu erfitt það er að taka það skref að samþykkja að þungunarrof, eða fóstureyðing, geti orðið allt fram að 22 vikum. Það er bara erfitt að samþykkja það. Það er erfitt að samþykkja það þegar það eru meira að segja deildar meiningar um það hversu lífvænlegt fóstur er og það getur verið lífvænlegt á 22. viku.

Læknisfræðilega eru dæmi um að fóstur, fyrirburar, hafi lifað, jafnvel yngri. Þannig að við skulum nú fara hægt í að vera með fullyrðingar. Ég bið um að við stígum hægt til jarðar. Það eru varnaðarorð, m.a. frá Siðfræðistofnun. Ég er ekki alltaf og var ekki alltaf sammála ágætri vinkonu minni Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur hér, en hennar umsögn er alveg einstök. Hún er vel sett fram. Hún er vel rökstudd. Ég hygg að það væri skynsamlegt fyrir okkur hér að lesa hana aftur yfir (Forseti hringir.) áður en við greiðum atkvæði um þetta frumvarp.