149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[22:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M):

Hæstv. forseti. Ég kem upp í dag svona til þessa að ljúka málinu. Í umræðunni í dag, sem hefur verið mjög góð, hafa vaknað hjá mér margar spurningar. Ég hef setið og fylgst með hverri einustu ræðu sem hefur verið flutt og mér finnst fólk, margt hvert, ekki vera með það algjörlega á hreinu hvert við erum að fara með þetta mál. Hv. þingmenn hafa vissulega reynt að gera vel grein fyrir skoðunum sínum, eins og við öll í salnum, en vegna þess að ég er ekki með allt á hreinu óska ég eftir því að við vísum málinu aftur til hv. velferðarnefndar. Það er þá sérstaklega gert til þess að skerpa enn betur á þeim álitaefnum sem hafa komið upp í dag, þó svo að umræðan hafi verið mjög góð. Ég hef skrifað hjá mér ýmsar spurningar sem ég hef hug á að fara með fyrir nefndina og vona að mér verði vel tekið, þannig að við getum öll í næstu umferð — ég vona að málinu ljúki svo — tekið upplýsta ákvörðun um þetta viðkvæma mál, eins og sagt hefur verið áður.