149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[11:56]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þetta er óumdeilanlega viðkvæmt mál. Það eru siðferðileg álitamál, það eru félagsleg álitamál og þau snerta ýmislegt í þessu máli, ekki bara tímalengdina. Þetta tiltekna mál snýst hins vegar um það hver tekur ákvörðunina þegar upp er staðið.

Það er ekki þungunarrof nema um það sé tekin ákvörðun. Er sú ákvörðun betur sett í höndum óskilgreindra sérfræðinga úti í bæ eða í höndum þeirra kvenna sem um ræðir hverju sinni? Ég segi: Það hlýtur að vera þar ef við trúum á annað borð á það samfélag þar sem ríkir einstaklingsfrelsi og ábyrgð og við ráðum okkur sjálf og viljum byggja upp þannig samfélag. Þess vegna segi ég já við þessu frumvarpi. Þess vegna segir þingflokkur Viðreisnar já við þessu frumvarpi. Þetta snýst um einstaklingsfrelsi. Þetta snýst um frelsi konunnar til að ráða eigin líkama, eigin lífi, eigin tilfinningum og eigin framtíð. Við sérfræðingsvæðum það ekki.