149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[12:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við samningu tillögunnar sem núna er lagt til að vísað verði til ríkisstjórnarinnar var farið eftir tilmælum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna varðandi framkvæmd barnasáttmálans á Íslandi, tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins um réttindi barna og barnvæna félagsþjónustu við börn og fjölskyldur og Evrópuráðssamningi um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðislegri misnotkun.

Einnig var farið eftir skýrslu umboðsmanns barna og helstu áhyggjuefnum þess embættis og litið til þess að fyrirtæki setji sér fjölskyldustefnu, stytti vinnutíma og geri vinnutíma sveigjanlegri og hvernig unnt sé að tryggja að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum, t.d. vegna veikinda þeirra eða fötlunar, að þriðja valfrjálsa bókunin við samning Sameinuðu þjóðanna um barnasáttmálann verði lögfest og einnig samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Best hefði verið, herra forseti, að samþykkja þessa góðu tillögu. (Forseti hringir.) Næstbest er að vísa henni til ríkisstjórnarinnar. Tillagan fékk afskaplega góðar umsagnir sem ég vona að ríkisstjórnin taki einnig til greina og þeir sem vinna með tillöguna.

Ég segi já.