149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

lax- og silungsveiði.

645. mál
[13:07]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka undir með hv. framsögumanni um nauðsyn þess að koma þessum lögum á. Ég vildi aðeins koma inn á nokkur atriði. Mér finnst að með þessum lögum og afgreiðslu hv. atvinnuveganefndar séum við enn frekar að festa það í sessi sem á að vera yfir og allt um kring þegar kemur að auðlindanýtingu okkar Íslendinga, þ.e. að hún byggi á vísindalegri ráðgjöf, að við förum um hana eftir formerkjum sjálfbærrar þróunar. Akkúrat í því ljósi er þetta frumvarp lagt fram og ber afgreiðsla okkar í hv. atvinnuveganefnd þess merki.

Þetta á að vera það sem við förum eftir þegar kemur að allri nýtingu náttúruauðlinda, hvort sem er fiskveiðistjórn eða öðru sem kalla mætti nýtingu og heyrir undir skipulagsmál, þ.e. þar sem við ráðum hver nýtingin er, eins og varðandi fiskeldið, og eins þegar kemur að villtum fuglum og spendýrum.

Meiri hlutinn bendir á nauðsyn þess að fara í heildarendurskoðun og það er mjög góð ábending sem ég vona að hæstv. ráðherra hlusti á. Sjálfur tel ég að við eigum að fara í allsherjarendurskoðun á lagaumhverfi okkar þegar að þessu kemur og skoða þetta einnig í samhengi við lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, að farið verði í nokkurs konar lagahreinsun og að skoðaðar verði sameiningar og hvernig best sé að haga málum í þessum efnum öllum þannig að vísindaleg nálgun sé yfir og allt um kring í þessum efnum. Ég fagna þessari afgreiðslu.