149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

einkaframkvæmdir í heilbrigðiskerfinu.

[15:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Við erum sammála um það grundvallaratriði að það sé mikilvægt að tryggja aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu og gæta líka að ráðstöfun opinbers fjár. Frá árinu 2015 hefur fjöldi liðskiptaaðgerða aukist umtalsvert, fjöldi á biðlista hefur minnkað og biðtími hefur styst. Þannig er það.

Hv. þingmaður veltir því síðan upp að það sé alveg sama, eins og hann orðar það, hver veiti þjónustuna, og þá á hann væntanlega við að það sé alveg sama hvort það séu opinberir aðilar eða einkaaðilar.

Ég hef tekið eftir því að Viðreisn hefur tekið sér það hlutverk á Alþingi að vera sérstakir talsmenn einkaaðila í heilbrigðisþjónustu. Þá vil ég geta þess að í 40. gr. laga um Sjúkratryggingar Íslands segir, með leyfi forseta:

„Við samningsgerð um heilbrigðisþjónustu skal þess gætt að raska ekki þeirri þjónustu sem veita ber samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.“

Hvað þýðir þetta?

Í greinargerð með þessu ákvæði sem var samþykkt hér og gert að lögum á árinu 2007 segir, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir að samið sé við einkaaðila um veitingu þjónustu ef slíkt raskar hinu opinbera þjónustukerfi. Þannig er ekki unnt að tína út ábatasömustu þjónustuþættina ef það þýðir að opinber stofnun missi hæfni til að veita þjónustu á hagkvæman og öruggan hátt.“

Þetta er í lögskýringargögnum með gildandi lögum. Þess vegna er sérhver ákvörðun sem ráðherra tekur eða Sjúkratryggingar fyrir hans hönd um að kaupa heilbrigðisþjónustu út fyrir hið opinbera heilbrigðiskerfi mikill ábyrgðarhluti. Það verðum við að passa upp á þannig að það raski ekki þeirri þjónustu sem fyrir er. Þess vegna þurfum við greiningu og þess vegna bíð ég eftir skýrslu landlæknis um árangur af biðlistaátakinu.