149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

mótun stefnu um bráðaþjónustu utan spítala.

687. mál
[17:38]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu velferðarnefndar til þingsályktunar um mótun stefnu um bráðaþjónustu utan spítala. Ég tel að á engan sé hallað að nefna í upphafi það frumkvæði sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason hefur, auðvitað auk annarra, haft í þessu máli og er full ástæða til að þakka það. Það er mikilvægt í breyttum heimi þar sem hlutirnir gerast hraðar og krafan eykst um að hlutirnir gerist hraðar og að allir hafi aðgang að þjónustu á sem fljótvirkastan og bestan hátt. Möguleikar okkar til að veita þjónustu eru sífellt að nálgast einhvers konar óendanleika. Þá er afskaplega mikilvægt að við höfum mótaða og skýra stefnu um hvernig við ætlum að standa að þessum málaflokki.

Það er einnig rétt að taka fram hér í upphafi að auk þess sem hv. velferðarnefnd hefur verið að skoða þetta mál og vinna það er mér kunnugt um að samtöl hafi átt sér við heilbrigðisráðuneytið. Þetta mál hefur verið skoðað innan heilbrigðisráðuneytisins og er ég ekki grunlaus um að einhver samtöl hafi farið fram á milli sumra þeirra þingmanna sem flytja málið við starfsmenn ráðuneytisins og ráðherra til að liðka fyrir málinu og koma því áleiðis.

Það er nefnilega afskaplega gaman að sjá það, og það er kannski að hluta til ástæða þess að ég kveð mér hljóðs, að þingið geti með þessum hætti komið af stað frumkvæðisvinnu, rætt mál í þaula í sínum ranni, en jafnframt kallað framkvæmdarvaldið til liðs við sig. Síðan myndi þingið beina með þessum hætti verkefnum til framkvæmdarvaldsins.

Það er líka gaman að sjá að það er algjör samstaða í nefndinni um þetta verklag og hefur nefndin verið sérlega lausnamiðuð við að lenda þessu máli undir forystu formanns hennar. Það er ástæða til að nefna það sérstaklega.

Ég geri ráð fyrir að þegar ráðuneytið fer í þá vinnu sem nefnd er í tillögugreininni verði kallaðir til þeir hagsmunaaðilar sem að málinu koma. Við vitum að á Íslandi hafa sjúkraflutningar verið með tiltölulega fjölbreytilegum hætti á undanförnum áratugum, allt frá því að vera beinlínis reknir af tiltekinni heilbrigðisstofnun fyrir tiltekin svæði yfir í það að vera í algjörri sjálfboðavinnu, eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom inn á áðan, og manni liggur við að segja: og allar aðferðir þar á milli.

En einmitt í flútti við heilbrigðisstefnuna, sem við munum væntanlega afgreiða á þessu þingi, er mikilvægt að þingið sýni það frumkvæði að segja: Já, við erum til í að samþykkja þessa heilbrigðisstefnu, en henni verður að fylgja að ráðuneytið fari fljótt og vel í þá vinnu að ganga frá þessum þáttum. Ef þeir hv. þingmenn sem ekki eru í velferðarnefnd lesa heilbrigðisstefnuna grannt og eru ekki búnir að sjá drög að nefndaráliti sjá þeir að þetta tvennt hangir algjörlega saman, að heilbrigðisstefnan getur illa staðið án þess að við séum búin að hnýta þennan enda eða a.m.k. ýta þessari vinnu af stað.

Það er líka mikilvægt, eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom inn á, að tengja það saman við þessa grunnsetningu í lögum um heilbrigðisþjónustu: Allir landsmenn eiga rétt á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á o.s.frv. Ég vona, herra forseti, að ég fari rétt með þennan texta, ég á náttúrlega að kunna hann utan að, en það kann að vera að þarna hnikist til eitt orð eða tvö. En við sem íbúar þessa lands, og þar með talið við sem löggjafi, verðum að trúa því að þessar setningar í lögunum hafi einhverja meiningu. Við vitum alveg og höfum heyrt að það er ekki alveg þannig í dag. Við vitum til að mynda um ferðakostnað og aðra erfiðleika sem íbúar í dreifðari byggðum eiga í varðandi að sækja sér þjónustu. Þá er oft og tíðum alls ekkert um það að ræða að við séum með algjörlega sambærilega þjónustumöguleika alls staðar. En ef við getum tryggt að flutningarnir séu í einhverjum farvegi með einhverjum þeim hætti og við trúum því að það gangi vel upp getum við kannski stigið enn eitt skrefið í að tryggja það.

Menntun sjúkraflutningamanna er sífellt að batna. Þó að það sé ekki enn þá orðið þannig hér á Íslandi, alla vega ekki að öllu leyti, að menntun sjúkraflutningamanna flokkist sem háskólamenntun er það orðið víða úti í heimi þannig að þetta er menntun sem menn sækja sér á háskólastigi, enda er þjónustan oft og tíðum mjög flókin. Hún getur verið sérstaklega flókin og ábyrgðarmikil í stóru landi eins og okkar þar sem byggðir eru dreifðar og þarf stundum að flytja fólk um langan veg, oft með lífið í lúkunum. Þá skiptir gríðarlega miklu máli að vera vel undirbúinn.

Ég treysti því að heilbrigðisráðuneytið muni sérstaklega taka þann þátt inn í mótun þessarar heildstæðu stefnu því að það hlýtur að fylgja. Og jafn fallega sem það kann að hljóma að það séu „bara áhugamenn“ á sumum stöðum sem sjá um þessa þætti verðum við líka með einhverjum hætti að tryggja að þessir aðilar hafi aðgang að þeim menntunartækifærum sem eru nauðsynleg til að geta sinnt þessu ábyrgðarmikla starfi.

Það er ekki hægt að nefna sjúkraflutninga á Íslandi öðruvísi en að nefna mikilvægt hlutverk Rauða krossins í þeim efnum. Ég held að full ástæða sé til að nefna það og þakka. Ég held að það sé óhætt að segja að Rauði krossinn hafi í gegnum tíðina verið burðarás, a.m.k. í uppbyggingu sjúkraflutninga víða á landinu. En núna erum við í miklu meira mæli en áður að skoða öðruvísi sjúkraflutninga en bara í bifreiðum á milli einhverra tveggja staða sem fært er að fara á í bíl. Við erum náttúrlega líka að tala um flugvélar og þyrlur og jafnvel skip og báta í þessu sambandi. Allt þetta þarf að koma til.

Ég fagna því sérstaklega að við skulum vera komin á þennan stað og vona að þetta mál fái farsæla afgreiðslu í höndum þingsins.