149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það eina sem ég sé jákvætt í þessu frumvarpi frá því síðast er 20. gr. þar sem kveðið er á um að lýðheilsusjóður skuli leggja sérstaka áherslu á rannsóknir á áfengisneyslu sem og forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna. Annað finnst mér ekki vera gott í þessu máli, að það er á allan hátt verið að reyna að útvíkka eitthvað. Það er verið að gera tilraun til að heimila auglýsingar en þó með einhverjum takmörkunum og það er lengra frá því en við höfum verið að gera.

Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson spurði líka áðan um kúltúrinn, að drekka með mat og eitthvað slíkt, mýtuna um það, og hv. þingmaður spyr mig núna um lækkað verð eða aukið úrval og eitthvað slíkt. Eins og komið hefur fram á það alls ekki við um allt landið. Ég held að það liggi alveg fyrir að það er ekki svoleiðis, heldur yrði það hugsanlega þannig að sumar verslanir á stórhöfuðborgarsvæðinu eða stórmarkaðir þar sem þeir eru gætu boðið einhverja tiltekna vöru á lægra verði á einhverjum tilboðum. En almennt held ég að vöruverð myndi hækka. Það þekkjum við úti á landi í þeirri breytingu sem hefur átt sér stað í verslun.