149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Aldrei þessu vant ætla ég undir liðnum störf þingsins að tala um störf þingsins. Ég spyr, virðulegur forseti: Liggur þinginu lífið á að taka líf, svo mikið að það má ekki að ræða málið almennilega í velferðarnefnd? Hvernig stendur á því að þegar maður leggur fram ósk í velferðarnefnd um að fá landlækni til að ræða þær 22 vikur sem eru í fóstureyðingarfrumvarpinu að meiri hlutinn segir nei, það sé búið að ræða það alveg nógu mikið? Sami meiri hluti og hefur fullyrt hér að ekki sé hægt að bjarga fóstri undir 22 vikum. Staðreyndin er sú að hægt er að bjarga 6% fóstra undir 22 vikum. Síðan var einnig lögð fram beiðni um að fá tvo lækna fyrir nefndina. Því var hafnað.

Mér er gjörsamlega óskiljanlegt af hverju í ósköpunum fólki liggur svo lífið á að koma þessu máli í gegn að það megi ekki ræða það betur. Við ræðum hérna tímunum saman um áfengi í búðir, en við ætlum að keyra þetta mikilvæga mál í gegnum þingið liggur við án nokkurrar umræðu.

Í þessu máli er líka annað, um börn sem verða þunguð. Þar segir í einni grein að börn sem verða þunguð, komin allt að 22 vikum, geti farið í fóstureyðingu án þess að tala við foreldra sína. Hvar er stuðningurinn? Hvernig á að tryggja það? Þarf ekki að ræða þetta betur? Nei, ekki að mati meiri hlutans í nefndinni.

Mér finnst það alveg til háborinnar skammar að við skulum ekki vanda okkur betur við þetta mál og ræða það betur vegna þess að við erum að byrja á öfugum enda. Við eigum að byrja á því að sjá til þess með öllum ráðum að engin kona þurfi að standa frammi fyrir því að fara í fóstureyðingu.