149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

staða innflytjenda í menntakerfinu.

[14:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér stöðu innflytjenda en hlutfall þeirra á Íslandi hefur aldrei verið hærra en á síðasta ári þegar það var 12,6% mannfjöldans og hlutfallið hækkar áfram. Staðreyndin er sú að innflytjendur mæta hindrunum við að sækja sér menntun, fá síður störf við hæfi, búa við þrengri húsakost og hafa að hluta til verri fjárhagsstöðu en innlendir íbúar.

Árið 2015 voru ríflega 3.500 nemendur af erlendum uppruna í grunnskólum vítt og breitt um landið og hefur enn fjölgað frá þeim tíma. Skólarnir reyna oft við þröngan kost að takast á við þessar nýju aðstæður og krefjandi verkefni. Hagstofan bendir á að skólasókn innflytjenda í leikskóla, framhaldsskóla og háskóla sé að jafnaði lægri en skólasókn innlendra. Mestur sé munurinn í framhaldsskólunum. Hlutfallslega færri innflytjendur en innlendir byrja í framhaldsskóla við 16 ára aldur og skólasókn þeirra lækkar meira fyrir hvert aldursár.

Skýrar vísbendingar eru því um að brotthvarf úr framhaldsskóla sé algengara meðal innflytjenda en innlendra. Þetta er umhugsunarefni og áhyggjuefni. Hvernig bregðast svo íslensk stjórnvöld við þeim aðstæðum sem liggja fyrir? Eru stjórnvöld einbeitt og stefnuföst? Nei, þau hafa ekki verið það. Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda frá árinu 2016 er útrunnin, hefur komist til framkvæmda að litlu leyti og mér skilst að eyrnamerkt fé í áætluninni liggi að mestu ónotað og Fjölmenningarsetur er fjársvelt.

Samfylkingin lagði í haust fram tillögu á Alþingi undir forystu hv. þm. Guðjóns Brjánssonar um samræmda mótun í þeim málaflokki til langs tíma en hefur ekkert brautargengi fengið. Menntun er lykilatriði til að jafna stöðu ungmenna og til að gefa öllum tækifæri. Þess vegna er svo mikilvægt að stjórnvöld leggi sig fram við að bæta stöðuna og koma um leið í veg fyrir samfélagsleg vandamál sem gætu tengst innflytjendum sérstaklega.