149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í gegnum tíðina hafa konur beðið eftir réttindum sínum á svo ótal mörgum sviðum. Þeim hafa verið skömmtuð réttindi, hægt og sígandi, af körlum. Það sama er að eiga sér stað í þessari umræðu í dag. Sjálfsákvörðunarrétt kvenna, sem beðið hefur verið eftir í fjóra áratugi, á skammta í svona hæfilegu magni, sumt en annað ekki.

Virðulegi forseti. Það er algjörlega óboðlegt á 21. öldinni að við konur látum bjóða okkur þetta. Það er bara ekki hægt. Þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir voru ræddar við 2. umr., 18 vikur eða 22 vikur. Þetta er allt saman útrætt. Það breytist ekkert þó að við frestum umræðunni, ekki neitt. Það er alger fásinna að halda að hér breytist eitthvað í umræðunni. Þetta mál er búið að fá umræðu í velferðarnefnd. Tæknilegu breytingarnar sem hér liggja fyrir komu fram í gær og var hægt að kynna sér þær. Þannig að það er enginn að flýta hér einu eða neinu. 40 ár eru ansi langur tími.