149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[15:51]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegur forseti. Það urðu mér talsverð vonbrigði að velferðarnefnd skyldi ekki sjá sér fært eða sjá ástæðu til að horfa til þeirra gildu sjónarmiða varðandi viknafjöldann sem hafa komið fram. Ég lít ekki á þetta sem einvörðungu læknisfræðilegt úrlausnarefni. Mér finnst t.d. að velferðarnefnd hefði sem best getað tekið tillit til álits Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem er býsna ítarlegt og vandað. Ég vil taka það fram líka að þær athugasemdir sem ég geri við þetta frumvarp eins og það stendur eru bara við 4. gr., vegna þess að ég er sammála frumvarpinu og tel það mjög gott í öllum meginatriðum. Mér finnst þess vegna miður að 4. gr. skuli vera orðuð og frágengin með þeim hætti að mér finnst ekki viðunandi.

Hæstv. heilbrigðisráðherra lagði sjálf til 18 vikur í sínu frumvarpi. Ef þeim flokkssystkinum hennar sem núna hafa talað í þessu máli finnst breytingartillaga mín um 20 vikur bera vott um einhverja forneskju af minni hálfu, hvað mátti þá segja um frumvarp ráðherrans um 18 vikur? Ég kem aftur inn á tillögu mína hérna rétt á eftir.

Hér er vitnað í sérfræðinga og sagt að nefndin hafi tekið fullkomið tillit til þeirra sérfræðinga og þeirra fagaðila sem hafa komið fram fyrir nefndina. En velferðarnefnd hefur kosið að gera ekki sérstaklega mikið með álit Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Nú ætla ég að lesa upp tvo stutta kafla úr því áliti:

„Líta verður svo á að þessi tímamörk marki ekki einvörðungu þann tíma þar sem kona getur tekið ákvörðun um þungun eða ekki þungun, heldur sé þetta einnig sú siðferðilega lína sem sátt ríkir um að draga og marka þar með rétt fósturs til verndar. Flestir telja að fóstur sem er komið með getu til að lifa sjálfstæðu lífi utan líkama móður eigi rétt á vernd óháð vilja móður eða nokkurs annars (nema líf eða heilsa móður sé í hættu eða fóstur eigi sér ekki lífsvon). Í þessum tilvikum er litið svo á að fóstrið (barnið) þiggi ekki siðferðilegt gildi sitt frá vilja móður eða annarra sem að því standa heldur hafi það eigið gildi og eigi þar með sjálfstæðan rétt til lífs. Lífvænleiki utan líkama móður er í greinargerð miðaður við 21 viku og 6 daga, Þar liggur grundvöllur þeirrar 22 vikna viðmiðunarlínu sem fram kemur í frumvarpinu. Velta má upp þeirri spurningu hvort hún liggi ekki of nálægt þeim mörkum sem hér um ræðir.“

Í lokaorðum nefnir síðan Siðfræðistofnun fyrstu ástæðu þess, fyrstu athugasemd við það að þetta frumvarp ætti ekki að ganga fram óbreytt:

„Í fyrsta lagi telur Siðfræðistofnun varasamt að heimila þungunarrof allt til 22. viku því þá getur fóstur verið orðið lífvænlegt utan líkama móður.“

Það hefur sem sagt ekki í meðförum nefndarinnar verið tekið tillit til þessarar niðurstöðu Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. En látum það vera. Það sem ég er að reyna að halda fram er að þetta sé ekki læknisfræðilegt úrlausnarefni, málið sé þess eðlis að það sé miklu betra fyrir alla, líka konurnar sem hér um ræðir, að það ríki eins mikil sátt um þetta mál og að það gangi með þeim hætti fram að sem flestir geti við það unað eins og unnt er. Því skil ég ekki alveg af hverju það þarf að ganga fram með þeim hætti sem hér er gert.

Ég hef sjálfur ákveðið að leggja fram breytingartillögu við þetta frumvarp, bara 4. gr., vegna þess að ég styð frumvarpið í öllum meginatriðum. En við 4. gr. legg ég til þá breytingartillögu að í stað 22 vikna sé miðað við 20 vikur. Þetta er ekki gert með læknisfræðilegum rökum. Þetta er gert með tilvísun til þess álits sem fram kemur í áliti Siðfræðistofnunar Háskólans og er sem kalla mætti, úr því sem komið er, vanmáttuga tilraun til þess að fjölga þeim sem geta unað við þetta frumvarp í stað þess að afgreiða það í logandi ósátt. Sjálfsákvörðunarréttur kvenna á ekki skilið að hann fuðri upp í umræðu um eitthvað allt annað. Ég dreg í engu í efa og ég styð af öllu hjarta meginefni frumvarpsins um sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Mér finnst einfaldlega of langt gengið. Ég geng ekki einu sinni svo langt í minni breytingartillögu að fara í upphaflega frumvarp hæstv. ráðherra sjálfs heldur fer ég þennan milliveg í þeirri von að hægt sé að mynda um þetta meiri sátt og fleiri geti unað við frumvarpið og það verði sá sigur fyrir sjálfsákvörðunarrétt og kvenfrelsi sem að var stefnt.