149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hún svaraði þó ekki læknisfræðilegu spurningunni sem ég bar upp um tilfelli þegar læknir ákveður að eitthvað sé að og tilkynnir foreldrum. Ég spyr hana hvort hún hafi engar áhyggjur, eða finnst henni sambærilegt ef kona ákveður að fara í fóstureyðingu fyrir 12. viku og ef kona ákveður að fara í fóstureyðingu á síðasta snúningi — eins og hún sagði er þetta frjálst í Kanada — áður en fæðing verður? Ég tel þarna um tvo gjörólíka hluti að ræða. Ég segi fyrir mitt leyti að ég myndi ekki vilja vera í sporum konu sem þarf að taka slíka ákvörðun. Það hlýtur að vera skelfilegasta reynsla allra tíma.

Það sem mér finnst kannski sorglegast í þessu öllu saman er að við stillum því þannig upp að þetta sé, sem er að mörgu leyti rétt, alfarið ákvörðun konunnar. En þá erum við að loka á að faðirinn hafi nokkuð um það að segja. Við gætum sett inn ákvæði um umræðu en það má ekki einu sinni vera inni. Mér finnst eiginlega að konunni beri að taka þessa umræðu við einhvern áður en hún tekur ákvörðun, þótt að hún sé endanlega hennar. En það er ekki einu sinni inni í dæminu, það á ekki einu sinni við um hjón. Konan getur tekið ákvörðunina án þess að ræða við manninn sinn. Ég get bara ekki skilið í öllu okkar jafnrétti og allri okkar jafnréttisumræðu að við spyrjum okkur ekki þeirrar spurninga. Eru slíkur samræður ekki alveg sjálfsagðar þó að þetta sé endanlega réttur konunnar?