149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til þungunarrofs. Flokkur fólksins hefur sent inn breytingartillögu 3. minni hluta og stendur við hana.

Í allri þessari umræðu horfum við, held ég, fram hjá ýmsu sem skiptir máli. Það er eiginlega sorglegt að við 2. umr. kom fram fullt af spurningum sem ég taldi að svara þyrfti, og sérstaklega einni spurningu sem er um þá fullyrðingu að við lok 22. viku eða fyrir þann tíma sé útilokað að barn eða fóstur muni lifa af þegar það fæðist. Staðreyndin er sú, sem ég hef séð erlendis, að það eru um 6% sem lifa það af.

Þau rök voru notuð frá landlæknisembættinu, sem átti að hafa sent það inn, að það væri útilokað að barn gæti lifað fyrir 22. viku. En þarna á mörkunum, rétt yfir þessum mörkum, hefur það gerst á Íslandi að barnið hefur lifað af fæðingu.

Síðan er annað í þessu. Ég vildi fá landlækni aftur til fundar á nefndasviði. Ég taldi það eðlilegt fyrst málið var komið til velferðarnefndar eftir 2. umr. Ég trúði því að þá væri hægt að ræða málið aðeins betur og fá fleiri umsagnaraðila til að koma fyrir nefndina. En einhverra hluta vegna þurfti að flýta þessu máli alveg gífurlega. Það var eins og það lægi lífið á að koma þessu máli í gegnum þingið og gera það að lögum.

Ég tek undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni. Það hefði engu breytt í sjálfu sér þó að beðið hefði verið í vikutíma. Ég skil ekki að ekki hafi mátt fresta þessu máli.

Það er líka ýmislegt sem var rætt og hefur verið rætt í velferðarnefnd. Það er t.d. 5. gr. frumvarpsins. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hana upp:

„Heimilt er að rjúfa þungun samkvæmt ákvæðum laga þessara hjá stúlku sem er ólögráða fyrir æsku sakir, að hennar beiðni, án samþykkis foreldra eða forráðamanna. Í tengslum við þungunarrof skal henni boðin fræðsla og ráðgjöf um getnaðarvarnir.“

Þarna erum við að tala um barn. Þarna er verið að leyfa fóstureyðingu hjá barni til 22. viku meðgöngu án samráðs við foreldra.

Ég spyr mig af hverju ekki hringi einhverjar viðvörunarbjöllur hjá okkur, að við skulum ekki bara spyrja okkur: Bíddu, er eðlilegt að hafa hlutina svona? Og ég spyr mig: Er ekki viðkomandi barn á ábyrgð foreldra sinna? Hingað til hefði ég talið að þetta væri barn í þessu tilfelli. Það eru alltaf jaðartilfelli, tilfellin sem verið er að tala um, að þess vegna þurfi þessa 22 vikur.

Rökin eru líka: Af hverju er stoppað við 22 vikur?

Í umsögn sem barst inn til velferðarnefndarinnar frá Guðmundi Pálssyni, sérfræðingi í heimilislækningum, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Nú liggur fyrir Alþingi nýtt frumvarp til fóstureyðinga með útvíkkuðum heimildum til loka 22. viku, þegar fóstur er rúmlega hálfvaxið í móður kviði. Sem lækni tel ég mér skylt að mæla gegn þessu, því að mér finnst óverjandi að eyða lífi í móður kviði, sérstaklega þegar um er að ræða barn með fullmótuð líffæri sem aðeins á eftir að vaxa.

Ég skil satt að segja ekki hvert við erum komin. Ég hélt við værum flest á móti því að taka líf manneskju, en svo virðist ekki vera lengur. Því að sérhvert fóstur hefur sérstakt erfðamengi og er manneskja hvernig sem málið er hugsað. Lífinu sem er eytt er til að mynda annaðhvort líf drengs eða stúlku. Það er ekki hægt að komast hjá þeim dómi að fóstureyðing sé í raun aftaka mannlegs lífs. Algengt andsvar er að spyrja hvort konan eigi ekki að hafa yfirráðarétt yfir eigin líkama. Svarið við því hlýtur að vera játandi, en takmarkast af því að hún þurfi ekki að taka annað líf til að ráða yfir sér. Því að fóstur í móður kviði er ekki hennar líf, heldur líf annarrar manneskju með annað erfðamengi, taugakerfi, blóðrás, hjarta og öll líffæri.

Öll líffæri hafa myndast á fyrsta þriðjungi meðgöngu í 13 viku og er því ekki um fósturvísi að ræða lengur. Hjartsláttur sést við ómskoðun á 6–7 viku.”

Ég hef áður bent á það og ítreka að framkvæmdar voru 1.044 fóstureyðingar. Af þeim voru um 40 af læknisfræðilegum ástæðum. Að við skulum ekki reyna allt sem við mögulega getum til að koma í veg fyrir að konur þurfi yfir höfuð að taka þessa erfiðu ákvörðun nema gjörsamlega í undantekningartilfellum. Það er það sem við eigum að byrja á. En ekki er byrjað á þeim enda.

Við eigum að sjá til þess að getnaðarvarnir og allt sem þær varðar sé frítt, bara algjörlega, þannig að enginn þurfi að neita sér um getnaðarvarnir vegna þess að hann hafi ekki efni á þeim. Því eigum við líka að byrja á. Það er það sem við eigum að byrja á áður en við rýmkum fóstureyðingalöggjöf upp í 22 vikur.

En við getum auðvitað byrjað á því nú þegar og getum svo sem lagt fram frumvarp um að hjálpa í þessum tilfellum.

Rætt hefur verið um undantekningartilfelli, þegar talið er að eitthvað sé að viðkomandi fóstri og þá sé sjálfsagt að eyða því. — Það er ekkert sjálfsagt í því efni.

María Jónsdóttir skrifar umsögn til nefndarinnar. Hún er fædd með klofinn hrygg og er þroskaþjálfi með MA-gráðu í fötlunarfræði. Ég get ekki skilið það öðruvísi en að áhyggjur hennar snúist um að þegar við erum komin upp í 22 vikur verði í flestum tilfellum þeim fóstrum eytt sem eru með klofinn hrygg.

Ég ætla, með leyfi forseta, að grípa niður í bréf Maríu þar sem hún skrifar orðrétt:

„Ég ræddi einnig við nokkrar mæður barna sem fæddust með þessa fötlun, konur sem fengu greininguna á meðgöngu, en nokkur börn hafa fæðst á Íslandi með klofinn hrygg á síðustu árum. Ein móðirin sagði mér að þau, verðandi foreldrarnir, hafi verið spurð á meðgöngunni hvort þau ættu heima í aðgengilegu húsnæði fyrir hjólastóla, en barnið þeirra þarf ekki að nota hjólastól. Önnur móðir talaði um að hún hefði haft frest fram á 22. viku til að fara í fóstureyðingu, en svo þegar hún var á fæðingardeildinni var önnur kona að fæða fyrirbura á 24. viku og allt var reynt til að reyna að bjarga því barni. Það er einmitt það sem mér finnst oft gleymast, að það gerist ýmislegt í fæðingunni sjálfri og í lífinu. Þó svo að einhverjum örfáum fötlunum sé „útrýmt“ á meðgöngu, þá er svo margt sem greinist ekki á meðgöngu og ýmis veikindi og slys sem fólk getur lent í á ævinni þannig að við verðum aldrei öll eins, öll ófötluð.“

Því miður tel ég alveg klárlega að í mörgum tilfellum telji læknar, ekki af neinum slæmum hug, og meti það þannig að það sé mjög líklegt að eyða þurfi viðkomandi fóstri. Það getur orðið rosalega þungbært að taka þá ákvörðun að fara ekki að ráðum læknisins í því tilfelli og halda meðgöngunni áfram en fæða síðan kannski heilbrigt barn. Það sem viðkomandi læknir taldi að væri að var ekki að.

Þess vegna finnst mér skrýtið þegar ég spurði að því í nefndarstarfinu þegar fulltrúar komu frá landlækni, og sérstaklega í því samhengi, hvort fylgst væri með þeim fullyrðingum að eitthvað væri að og þess vegna þyrfti fóstureyðingu, og hvort það væri kannað hvort það væri rétt.

Í hvaða tilgangi spurði ég að því? Jú, af því að ef lækninn hefur rangt fyrir sér þarf að endurmeta þá staðhæfingu sem leiddi til þess að viðkomandi læknir taldi það mjög líklegt að fara þyrfti fram fóstureyðing vegna þess að viðkomandi barn ætti ekki mikinn möguleika á því að fæðast ófatlað.

Við í Flokki fólksins erum sammála flestöllum atriðum í þessu frumvarpi. Við erum ósammála heiti frumvarpsins, „þungunarrof“. — Rof? Við rjúfum eitthvað, við rjúfum vegg, við rjúfum veg. En það er hægt að laga það aftur. En í þessu tilfelli, ef við rjúfum meðgönguna, er ekki hægt að taka það til baka. Þess vegna erum við að eyða, við erum að eyða fóstri. Við eigum að tala um hlutina eins og þeir eru, ekki setja þá í fallegar umbúðir til þess að — ég veit ekki hvað — friða samvisku okkar.

Við eigum að sjá til þess að í jaðartilfellunum sé viðkomandi konu hjálpað algjörlega undantekningarlaust, henni, leiðbeint og henni veitt aðstoð. En þetta eru undantekningartilfelli. Þessi undantekningartilfelli eru svo fá. Af 1.044 fóstureyðingum eru bara 40 af læknisfræðilegum ástæðum. Við skulum í hvívetna leyfa öllum bjöllum að hringja og spyrja okkur hvers vegna einni af hverjum fimm þungunum sé eytt í dag, og það án þess að við ætlum að spyrja okkur: Bíddu, hvernig í ósköpunum getum við séð til þess að konur þurfi ekki að vera í þessari aðstöðu? Við munum gera það með öllum tiltækum ráðum, gera allt sem við getum til þess að hjálpa þeim sem munu í framtíðinni verða þungaðar. Við hjálpum þeim á allan hátt og sjáum til þess að þær þurfi alls ekki á nokkrum tímapunkti að vera í þeirri skelfilegu stöðu að þurfa að taka ákvörðun um að eyða lífi sem hefur kviknað.