149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[21:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum nefndarálit um að fullgilda fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja. Það er rétt, eins og fram hefur komið í þessu máli, að það er alls ekki í fyrsta skipti sem þetta mál kemur hér til umræðu í þingsal eða hjá hv. utanríkismálanefnd.

Virðulegur forseti. Ég sit í utanríkismálanefnd og skrifa undir þetta nefndarálit. Ég vildi bara ítreka það í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið hér að með því er ég að sjálfsögðu ekki að styðja við eða mæla þeim mannréttindabrotum bót sem eiga sér stað á Filippseyjum og alls ekki er ég að styðja þarlendan þjóðhöfðingja, Duterte. Það er algerlega óumdeilt hjá öllum þeim sem fjallað hafa um málin, hvort sem það eru fjölmiðlamenn eða mannréttindasamtök að þar eru framkvæmd mannréttindabrot. Það er vont og ég styð það alls ekki né neinn af þeim sem skrifa undir þetta nefndarálit.

Aftur á móti er ég þeirrar skoðunar að fríverslunarsamningar almennt séu af hinu góða. Þeir geti bætt hag almennings í samningsríkjunum og vinni gegn einangrunarstefnu. Auk þess auka samningar sem þessir samskipti og tækifæri til að koma á framfæri afstöðu. Mig langar, virðulegur forseti, að nefna, af því að hér er hv. þm. Smári McCarthy, sem er jafnframt formaður Íslandsdeildar EFTA, Íslandsdeildar þingmanna (Gripið fram í: Þingmannabatterísins.) — já, þingmannabatterísins, afsakið, það er aðeins liðið á kvöldið — að við höfum bæði rætt í þessum þingsal og í nefndinni mikilvægi þess að þetta sé tekið upp á þeim vettvangi og EFTA beiti sér af einhverjum þunga í þessari umræðu. Mér finnst líka mikilvægt að það komi fram sem ég held að flestum sé ljóst, ég er alla vega nokkuð viss um það, að Duterte er það mjög ljóst að utanríkisráðherra Íslands hefur gagnrýnt, ekki bara einu sinni og ekki bara tvisvar, mannréttindabrot sem eiga sér stað á Filippseyjum. Sú rödd þarf alltaf að heyrast.

Ástæðan fyrir því að ég samþykki að við fullgildum þennan samning — það er kannski ástæða til að nefna að hann er orðinn svolítið gamall og hin EFTA-ríkin, Noregur, Liechtenstein og Sviss, fullgiltu hann um mitt síðasta ár — er að við sem styðjum málið teljum að það sé þó skárri kostur og geti mögulega leitt af sér aukin og bætt samskipti og það sé þjóðinni og almenningi í þessu landi til hagsbóta.